„Tilheyra engum nema hafinu“

Andrew Mars­hfield, ásamt kollega sínum í samtökunum, Amy Roberts.
Andrew Mars­hfield, ásamt kollega sínum í samtökunum, Amy Roberts. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andrew Marshfield, frá hvalavelferðarsamtökunum Sea Shepherd UK, fylgdist með hvalveiðum Hvals hf. í Hvalfirði í dag. Um klukkan tvö unnu starfsmenn Hvals að því að verka hval sem að sögn Andrews hafði legið í sjónum í um sextíu klukkutíma og var illa útleikinn.

Segir Andrew að þegar reynt hafi verið að hífa hvalinn á sporði hans hafi sporðurinn slitnað frá búknum. Andrew segir ástæðuna fyrir því vera sá langi tími sem hann lá í sjónum, en kjötið hafi verið farið að rotna. 

Hvalur sést hér sigla að höfninni í Hvalfirði með nýjan …
Hvalur sést hér sigla að höfninni í Hvalfirði með nýjan feng í eftirdragi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Kristján Loftsson er ábyrgur“

„Við, samtökin, erum stödd hérna við hvalstöðina í dag til að vekja athygli heimsins á þeim hvalveiðum sem eiga sér stað við strendur Íslands, veiðum sem Kristján Loftsson er ábyrgur fyrir,“ segir Andrew í samtali við blaðamann mbl.is sem kynnti sér aðstæður í Hvalfirði í dag.

Hvalur hf. hefur aflaheimild fyrir veiðum á 202 hvölum í sumar. Andrew segir að verkefni samtakanna í sumar sé að afla upplýsinga um hvern og einn hval sem Hvalur veiðir svo að fólk geri sér grein fyrir því hvað er að eiga sér stað á Íslandi.

„Þessir hvalir tilheyra engum nema hafinu og náttúrunni. Þeir eiga ekki að vera drepnir né slátrað, og kjöt þeirra ætti ekki að vera flutt til Japans.“

Að hans sögn sýna rannsóknir að neysla fólks á hvalakjöti hér á landi sé engin í samanburði við neyslu þess af hálfu ferðamanna sem ferðast til landsins. Samtökin hvetja fólk hvaðanæva að úr heiminum til þess að sniðganga þá aðila sem kaupa og selja hvalakjöt.

„Ef þið farið inn á veitingastað eða hótel, spyrjið þá hvort þau selji hvalakjöt. Ef svo er þá skuluð þið ganga út, en ekki fyrr en þið hafið útskýrt fyrir þeim af hverju þið séuð að ganga út,“ segir Andrew og bætir við að Sea Shepherd trúi því staðfastlega að hvalir skuli ekki vera drepnir.

Bandaríkjamaðurinn Micha Garen er einn þeirra sem hefur fylgst með …
Bandaríkjamaðurinn Micha Garen er einn þeirra sem hefur fylgst með hvalveiðunum, og segir hann þær vera grimmilegar og tilgangslausar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með hval í eftirdragi

Lykt­in í loft­inu við hval­stöðina var nán­ast óbæri­leg meðan viðtalið fór fram. Andrew segir aðspurður að lykt­in sé eðli­leg, miðað við reynslu hans þær tvær vik­ur sem hann hef­ur verið á land­inu. „Lyktin er ógeðfelld, hún er hræðileg. Og þetta er ekki falleg sjón. Við höfum séð fjölskyldufólk með börn koma við og horfa á mennina vinna á hræjunum. Það er skelfileg sjón fyrir börn að sjá.“

Þó hafi nokkrir íslendingar orðið skelfingu lostnir við að sjá hvalina á hvalstöðinni. Andrew segir að hann hafi rætt við suma af þeim, og hafi þeir allir lýst yfir vonbrigðum sínum með veiðarnar sem og að Ísland skuli enn vera tengt hvalveiðum.

Samtökin eru aftur á móti ekki í baráttu við Ísland eða Íslendinga. „Það sem við leggjumst gegn er það sem á sér stað hér, og við viljum að því linni,“ segir Andrew og bætir við að samtökin hvetji fólk úti í heimi að heimsækja Ísland, en að passa sig á þeim veitingastöðum og hótelum sem matreiða hvalakjöt.

Hvetur hann fólk að styðja samtökin. „Við, mannfólkið, eigum ekki hvalina og þeir eiga ekki að vera drepnir. Þeir tilheyra hafinu, þar sem þeir hafa alltaf verið.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert