UMFÍ tekur við rekstri skólabúðanna að Reykjum

Á myndunum má sjá þær Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, fráfarandi sveitarstjóra, …
Á myndunum má sjá þær Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, fráfarandi sveitarstjóra, og Auði Ingu Þorsteinsdóttur, framkvæmdastjóra UMFÍ, ásamt Sigurði Guðmundssyni, forstöðumanni skóla- og ungmennabúða. Ljósmynd/UMFÍ

Ungmennafélag Íslands, UMFÍ, mun taka við rekstri skólabúðanna að Reykjum í Hrútafirði frá og með komandi skólaári. 

Skólabúðirnar bætast við ungmennabúðir UMFÍ á Laugarvatni. Um 3.200 nemendur í 7. bekk grunnskóla víða af landinu koma ár hvert í skólabúðirnar að Reykjum og um 2.000 nemendur í 9. bekk í ungmennabúðirnar á Laugarvatni.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, fráfarandi sveitarstjóri Húnaþings vestra, og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, skrifuðu í dag undir samning um rekstur skólabúðanna. 

Áhersla á uppeldis- og félagsleg markmið

Sveitarstjórn Húnaþings vestra auglýsti í marsmánuði eftir samstarfsaðila til reksturs skólabúðanna að Reykjum og sóttist UMFÍ eftir samstarfi við sveitarfélagið um rekstur þeirra.

Í samstarfssamningnum kemur meðal annars fram að í skólabúðunum sé unnið eftir heimsmarkmiðum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem og aðalnámskrá grunnskóla.

Sérstök áhersla verður áfram lögð á uppeldis- og félagsleg markmið. Í skólabúðunum eru nemendur að auki kynntir fyrir sögu og atvinnuháttum á landsbyggðinni með skipulagðri safnakennslu í samstarfi við Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir og Auður Inga Þorsteinsdóttir skrifuðu í dag …
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir og Auður Inga Þorsteinsdóttir skrifuðu í dag undir samning um rekstur skólabúðanna. Ljósmynd/ UMFÍ

Tímamót hjá UMFÍ

Þetta er eitt af síðustu embættisverkum Ragnheiðar Jónu sem lætur af störfum sem sveitarstjóri síðar í mánuðinum.

„Skólabúðirnar á Reykjum byggja á mjög góðum grunni og þeim orðstír sem byggður hefur verið upp af fráfarandi rekstraraðilum síðastliðin 20 ár og þakkar sveitarfélagið fráfarandi rekstaraðilum farsælt samstarf og óskum þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi,” er haft eftir Ragnheiði Jónu í tilkynningu frá UMFÍ.

Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, segir tímamót vera að eiga sér stað hjá UMFÍ. 

„Í skólabúðunum á Reykjum munum við halda áfram með óformlegt nám eins og við gerum í Ungmennabúðum UMFÍ á Laugarvatni. Starfsemin verður að mestu með óbreyttu sniði en okkar góðu áherslur UMFÍ og gildi, sem fela í sér gleði, þátttöku og samvinnu, verða í forgrunni þar sem ungmennafélagsandinn verður leiðarljósið, er haft eftir henni. 

Vinna er þegar hafin við undirbúning komandi skólaárs.
Vinna er þegar hafin við undirbúning komandi skólaárs. Ljósmynd/ UMFÍ
Töluverðar framkvæmdir fara fram áður en fyrstu börnin mæta á …
Töluverðar framkvæmdir fara fram áður en fyrstu börnin mæta á svæðið. Ljósmynd/ UMFÍ
Um 3.200 börn í 7. bekk grunnskólanna sækja skólabúðirnar ár …
Um 3.200 börn í 7. bekk grunnskólanna sækja skólabúðirnar ár hvert. Ljósmynd/ UMFÍ
mbl.is