Verknaðurinn jafn alvarlegur þó börn séu að verki

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78 Samsett mynd

Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, segir samtökin opin fyrir því að bjóða táningunum, sem skáru niður fánana vegna Hinsegin daga á Hellu, velkomin til sín og ræða við þá og jafnvel foreldra þeirra. 

Hann segir verknaðinn jafn alvarlegan, og jafn beint gegn hinsegin fólki, þó börn eigi í hlut, en lögregla hefur greint frá því að fjórtán og fimmtán ára táningar hafi verið að verki.

Álfur segir atvikið gefa til kynna að það kunni að vanta meiri fræðslu inn í grunnskólana og utanumhald. 

„Það að hér séu krakkar að verki getur samt þýtt að ástæða verknaðarins sé ekki jafn rótgróið hatur, og við fyrstu sýn, sem er ánægjulegt.“

Töluverðir fordómar í þessum aldurshóp

Miðað við þær sögur sem starfsfólk samtakanna heyrir í gegnum félagsmiðstöðvar, kemur aldur sökudólganna ekki sérstaklega á óvart, að sögn Álfs. 

„Það eru töluvert miklir fordómar í þessum aldurshóp og við þurfum að takast á við það sem samfélag.“

Spurður hvort hann telji samfélagið vera að missa tökin og fordómana meiri hjá yngri kynslóðinni, segir hann birtingarmyndir fordóma koma í bylgjum, en í grunninn sé vandinn sá að fordómarnir falli í jarðveg sem sé opinn fyrir því. 

„Eftir hinsegin daga hafa mörg sveitarfélög komið til okkar og stefnt á samstarf með hinsegin fræðslu í grunnskólunum. Við erum alltaf mjög opin fyrir því.“

Fánarnir voru skornir niður í skjóli næturs.
Fánarnir voru skornir niður í skjóli næturs. Ljósmynd/Gunnar Aron Ólason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert