Vill sameina héraðsdómstólana

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefnt er að því að sameina alla átta héraðsdómstóla landsins í eina stofnun samkvæmt frumvarpi sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda. Þannig verði einn dómsstjóri sem sjái um að útdeila verkefnum þvert á umdæmi. 

„Margir þessir dómstólar eru í dag örstofnanir hjá ríkinu og við erum að reyna að auka skilvirkni og nýta betur fjármagnið. Á sama tíma er það bæði markmið og forsenda að okkur takist að fjölga störfum á landsbyggðinni,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is. 

Hann bendir á að um sé að ræða sambærilega vegferð tilfelli sameiningar sýslumannsembættanna. Frumvarp þess efnis er einnig í samráðsgátt um þessar mundir.

Vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar

Þann 23. mars 2022 skipaði dómsmálaráðherra starfshóp um sameiningu héraðsdómstólanna, meðal annars vegna ábendinga Ríkisendurskoðunar í skýrslu sem send var dómsmálaráðuneytinu 29. apríl 2020.

Í þeirri skýrslu kemur meðal annars fram að sameining héraðsdómstólanna sé skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins. Starfshópurinn hefur ekki lokið störfum en ráðgert er að störfum hans ljúki á komandi hausti. 

Fjölga störfum út á landi

Af hálfu dómsmálaráðuneytisins er forsenda sameiningarinnar að hinn sameinaði héraðsdómstóll hafi starfsstöðvar á landsbyggðinni. Þær verða þó „efldar og styrktar“ með nýjum verkefnum og byggt verður á verkefni um svonefnda réttarvörslugátt. 

„Við ætlum ekki að loka neinu, en við stefnum frekar að því að fjölga störfum út á landi. Þar sem var einn dómari verða kannski tveir, sama gildir um fulltrúa. Þetta er hluti af því sem lengi hefur verið áformað og er kveðið á um í byggðaáætlun og í stefnuskrá stjórnmálaflokka. Við erum að stíga stærstu alvöru skrefin í þessa átt.“

Sífellt fleiri mál geti verið unnin hvar sem er

Þannig kunna minni starfsstöðvar að fá í hendurnar mál einstaklinga úr stærri umdæmum, enda verður það dómsstjóra að ákveða hvar mál verða dómtekin. Jón á þó ekki von á því að einstaklingar verði látnir ferðast langar vegalengdir til þess að vera viðstaddir dómtöku mála sinna, enda verði komið á fót stafrænni meðferð dómsmála. 

„Í ákveðnum málum hefur stafræn þjónusta og fjarfundabúnaður komið inn og gefist vel. Sífellt fleiri mál eru þess eðlis að geta verið unnin hvar sem er, þó flóknari og erfiðari mál krefjist málsmeðferðar í dómssal.“

Þá bendir hann á að á tímum samkomutakmarka vegna heimsfaraldursins Covid-19, hafi reynst vel að nýta sér fjarfundabúnað og aðrar tæknilausnir í tilteknum málum.

Væntir hraðari málsmeðferð

Væntingar eru til þess að hið breytta fyrirkomulag nái fram einfaldari og skilvirkari stjórnsýslu fyrir dómstólana og eftirlit verði markvissara. Þá megi ætla að fjárframlög og mannauður dómstólanna muni nýtast betur og aukið hagræði náist við meðferð dómsmála. 

Jón sér ekki fyrir sér að heildarfjöldi starfsfólks héraðsdómstólanna minnki með þessari breytingu. Fyrir hinn almenna borgara sem nýtir sér þjónustu dómstólanna, eigi málsmeðferð þó að verða skilvirkari og hraðari svo biðtími styttist. 

„Við erum á mikilli ferð í því að innleiða stafræna tækni og rafræna þjónustu. Breytingar verða á næstu tveimur árum sem gera stofnanir ráðuneytisins betur í stakk búnar til þess að taka þessa þjónustu og vinna á landsvísu fremur en staðbundið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert