Flugfjöður af fugli til að dýfa í jurtablek

Handrit úr lögbókinni Heynesbók AM 147 4to.
Handrit úr lögbókinni Heynesbók AM 147 4to.

„Þetta verður einhvers konar tímaferðalag, því fyrir nútímabörn er kannski erfitt að ímynda sér þetta nema prófa sjálf og fá að handleika hlutina. Þannig geta þau áttað sig á hvað það hefur verið mikið átak á miðöldum að búa til handrit eða bók. Þau fá að upplifa erfiðleikastigið og hvað þarf mörg handtök og mikla þolinmæði. Þetta er annar heimur,“ segir Eva María Jónsdóttir miðaldafræðingur, önnur þeirra sem ætla að leiða skrifarasmiðju fyrir börn og fjölskyldur þeirra í Skálholti nú um helgina á vegum Árnastofnunar.

Fjóla K. Guðmundsdóttir verður með Evu og þær ætla að leiða gesti inn í heim horfinnar verkmenningar og gefa innsýn í handverk við bókagerð á miðöldum.

Þátttakendum býðst að spreyta sig á að skrifa á bókfell með fjaðurpenna og bleki eins og tíðkaðist við ritun fornu skinnhandritanna. Hægt verður að skoða verkfærin sem notuð voru við bókagerðina og fá fræðslu um það hvernig skinnin voru verkuð og bækur búnar til.

Heimagert jurtablek

„Fólk þurfti að eiga kálf eða útvega sér kálfskinn sem búið var að verka eftir kúnstarinnar reglum, setja það í kalkbað, losa hárin af, strekkja á ramma, skafa og þurrka. Að lokum pússa með vikursteini, svo hægt væri að kalla það bókfell, sambærilegt og pappír.

Síðan þurfti fólk að ná sér í einhvers konar penna, en penni á latínu merkir fjöður og fjöðurstafur var einmitt notaður til að skrifa með á miðöldum. Fólk þurfti að finna flugfjöður af fugli til að dýfa í blek og það þurfti líka að búa sjálft til blekið, úr sortulyngi og fleiri náttúrulegum efnum.

Til er uppskrift að slíku bleki í gömlu handriti og Árnastofnun hefur haft manneskju í því að sjóða innihaldsefnin saman til að búa til heimagert jurtablek fyrir smiðjuna okkar Fjólu og fleiri slíkar smiðjur. Allt finnst þetta í náttúrunni sem þurfti til bókagerðar, og þar sem börn eru svo tengd náttúrunni þá talar þetta til þeirra.“

Eva segir að safnkennari Árnastofnunar, Svanhildur María Gunnarsdóttir, hafi verið óþreytandi í því að safna fjöðrum og öðrum efniviði sem þarf til að bjóða til skrifarasmiðju.

„Hún hefur fundið margar flugfjaðrir í Vatnsmýrinni sem og víðileggi og annað sem þarf í jurtablekið. Kálfskinnið pöntuðum við að utan.“

Fá að sauma blaðsíðurnar saman sjálf

Eva segir að krakkarnir fái líka að prófa að sauma sjálf saman blaðsíðurnar sínar, en það þurfi elju til.

„Kálfskinnið endist gríðarlega vel, handritin okkar hafa enst í um 800 ár og við getum enn lesið þau, sem er stórkostlegt.“

Eva segir að skrifarasmiðjan sé einnig fyrir fyrrverandi börn, altsvo fullorðna.

„Foreldrar hafa ekki minna gaman af því en börnin að prófa og að handleika þessi efni.“

Skrifarasmiðjan verður í Skálholti í dag laugardag og á morgun sunnudag kl. 12-15. Öll velkomin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert