Höfðu margsinnis rætt við Sturlu um aspirnar

Aspirnar voru felldar á meðan Sturla var í Reykjavík.
Aspirnar voru felldar á meðan Sturla var í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aspirnar í landi Sturlu Jónssonar voru ekki felldar í heimildarleysi að sögn Einars Einarssonar, framkvæmdastjóra stjórnunarsviðs Landsnets. Hann segir að málið eigi sér langan aðdraganda og að heimild sé í lögum og skýrir ferlar til um mál sem þessi. 

Skylda að bregðast við

Sturla sagði í samtali við mbl.is í gær að menn á vegum Landsnets hafi fellt aspir í landi hans nærri Hveragerði í leyfisleysi – en aspirnar voru sagðar ógna rafmagnslínum á svæðinu. Þá segir Sturla farið hafi verið inn á land hans í heimildarleysi. Hann tilkynnti málið til lögreglu og kveðst ætla að kæra verknaðinn. 

Einar Einarsson.
Einar Einarsson. Ljósmynd/Landsnet

„Við sjáum að trén voru farin að ógna rekstraröryggi raforkukerfisins og þá persónuöryggi. Það er okkar skylda að bregðast við,“ segir Einar. 

Fór í formlegt ferli

Hann segir að andmælaréttur hafi verið tryggður og að Sturla hafi verið bent á yfirvofandi hættu og að bregðast þyrfti við. „Í þessu tilviki var ekki brugðist við og þá þurfum við að fara í formlegt ferli,“ segir Einar. 

Hann segir tvenns konar heimildir í raforkulögum til að bregðast við hættu á rekstraröryggi raforkukerfisins. Hið formlega ferli sé önnur þeirra en hin snúi að bráðri hættu sem kalli á tafarlaus viðbrögð.

Sturla kvaðs ætla að kæra verknaðinn.
Sturla kvaðs ætla að kæra verknaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með formlegu ferli voru þrír valkostir boðnir; að aspirnar yrðu færðar á vegum Landsnets, að eigandinn myndi færa þær sjálfur á kostnað Landsnets eða þær felldar. 

Þá liggi fyrir heimild frá Orkustofnun um að ráðast í aðgerðir, að ferlinu undangengnu. 

Spurður hvort að Sturla hafi því mátt vita að aspirnar yrðu felldar svarar Einar því játandi. „Þetta er ekki mál sem er að koma upp án forsögu. Við erum búin að vera í miklum samskiptum við hann, bæði formlegum og óformlegum.“

Helgunarsvæði í kringum línur

Þá segir Einar að ávallt sé heimild til staðar fyrir starfsmenn Landsnets til að fara inn á lóðir þar sem raforkukerfið er. „Það eru helgunarsvæði í kringum línur. Við verðum að getað ferðast með línunum til að geta tryggt öryggi, gert við og annað,“ segir hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Loka