Misskilningur ráðherra byggður á misskilningi

Jó­hann Páll Jó­hanns­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.
Jó­hann Páll Jó­hanns­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jó­hann Páll Jó­hanns­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, segir Sig­urð Inga Jó­hanns­son innviðaráðherra misskilja framlög úr Jöfn­un­ar­sjóði sveit­ar­fé­laga. 

„Í samkomulaginu frá 1996 er hvergi mælt fyrir um að Reykjavíkurborg skuli ekki eiga rétt á framlögum úr jöfnunarsjóði vegna reksturs grunnskóla eða vegna nemenda með íslensku sem annað tungumál,“ segir Jóhann Páll í skriflegu svari til mbl.is. 

Sig­urður Ingi sagði fyrr í vikunni í viðtali við mbl.is það vera stór­kost­leg­an mis­skiln­ing að Jöfn­un­ar­sjóður sveit­ar­fé­laga sé að brjóta á Reyk­vík­ing­um í kjölfar gagnrýni Söru Bjargar Sigurðardóttur, formanns íbúaráðs í Breiðholti og vara­borg­ar­full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. 

Taldi hún út­hlut­un­ar­regl­urn­ar mis­muna börn­um í Reykja­vík þar sem borg­in væri eina sveit­ar­fé­lagið á land­inu þar sem ekki væri greitt sér­stakt grunn­skóla­fram­lag með börn­um.

Sigurður Ingi vísaði til þess að samkomulag hafi verið gert árið 1996 þar sem út­svars­pró­sent­an var stillt þannig að Reykja­vík­ur­borg fengi nóg til þess að reka sinn skóla. Jöfnunarsjóður væri síðan notaður til þess að jafna stöðu þeirra skóla sem væru dýr­ari og væru með minni tekj­ur en Reykja­vík­ur­borg.

„Billegt“ að vísa til 20 ára gamals samkomulags

Jóhann Páll telur það heldur „billegt“ að vísa til samkomulags sem var gert fyrir meira en 20 árum „til réttlætingar á fjárhagslegri mismunun sem börn verða fyrir í dag og byggir á lögum nr. 157/2019 sem ráðherra sjálfur hafði forgöngu um að voru sett.“

Jóhann Páll vísar til ummæla Sigurðar Inga þar sem hann velti því upp hvort það væri „óeðlilega hátt hlutfall af börnum sem eru með íslensku sem annað móðurmál“.

„Það er auðvitað ekkert óeðlilegt að aðfluttu fólki með börn á grunnskólaaldri fjölgi á Íslandi og í höfuðborginni, þarna hlýtur ráðherra að hafa mismælt sig,“ segir Jóhann Páll.

„Þegar fjallað er um málaferli Reykjavíkurborgar gegn ríkinu vegna jöfnunarsjóðs er mikilvægt að hafa í huga að þau snúast einkum um það hvort heimilt hafi verið að útiloka Reykjavíkurborg frá framlögum um árabil með reglugerð, hvort lagaheimild hafi verið fyrir slíkri framkvæmd.“

Þá segir hann það vera annað mál hvort lög Sigurðar Inga „þar sem útilokun Reykjavíkurborgar, barna í Reykjavík, frá grunnskólaframlögunum var fest í sessi hafi átt rétt á sér.“

Verði að fylgja hlutlægum viðmiðum

Jóhann Páll bendir á að nemendur með íslensku sem annað mál eru hvergi fleiri en í Reykjavík og hafa fjölgað um 80 prósent frá 2016.

„En regluverkið sem Sigurður Ingi stendur vörð um felur í sér að Reykjavíkurborg fær eitt sveitarfélaga hvorki almenn framlög til grunnskóla né sérstök framlög vegna barna af erlendum uppruna meðan jöfnunarsjóður greiðir 130 þúsund króna framlag með börnum af erlendum uppruna í öðrum sveitarfélögum.“

Hann segir að auðvitað búa stærri og fjölmennari sveitarfélög yfir hærri heildartekjustofnum en þau minni og njóta meiri stærðarhagkvæmni við rekstur þjónustu.

„En það réttlætir ekki að eitt sveitarfélag sé tekið út fyrir sviga með þessum hætti óháð því hvernig samfélagið þróast og óháð útgjalda- og þjónustuþörf vegna lögbundinna verkefna. Það verður einfaldlega að fylgja hlutlægum viðmiðum og láta þau gilda um öll sveitarfélög og þjónustu við öll börn á landinu.“

mbl.is
Loka