Vörubílar á ferð á 7-8 mín. fresti

Mýrdalssandur.
Mýrdalssandur. mbl.is/Jónas Erlendsson

Flutningar vikurs frá fyrirhugaðri efnistöku á Mýrdalssandi til Þorlákshafnar með vörubílum allt árið um kring verða gríðarlega miklir ef vikurnámið við Hafursey, sem greint hefur verið frá í Morgunblaðinu, verður að veruleika. Nokkrar leiðir undir flutningana koma til greina á milli Þjórsár og Þorlákshafnar.

Fyrst í stað er gert ráð fyrir að 16 flutningabílar flytji 200 þúsund tonn árlega en þegar fullum afköstum verður náð, ein milljón árlega, er búist við að bílarnir verði orðnir 30 talsins.

„Miðað við að flutningar verði stundaðir um 280 daga á ári eru það 107 ferðir yfir sólarhringinn, eða rúmlega þrjár ferðir fyrir hvern vörubíl. Unnið verður á þrískiptum vöktum svo þessar 107 ferðir dreifast yfir allan sólarhringinn, að meðaltali þýðir það ný ferð á um korters fresti allan sólarhringinn. Ein ferð þýðir fullur bíll til Þorlákshafnar og tómur til baka, það munu því vörubílar fara um veginn á um 7-8 mín. fresti,“ segir í umhverfismatsskýrslu sem Efla hefur unnið fyrir fyrirtækið EP Power Minerals, sem hyggur á efnistökuna á vikri austan og suðaustan við Hafursey.

Þegar Skipulagsstofnun féllst á matsáætlun fyrirtækisins á seinasta ári kom m.a. fram að greina þyrfti áhrif mismunandi valkosta um flutningsleiðir og fyrirkomulag á flutningum milli Mýrdalssands og Þorlákshafnar, þ.ám. að meta áhrif flutninganna á umferðarmannvirki, umferð og umferðaröryggi. Er það gert í nýbirtri skýrslu.

Einungis ein akstursleið á þjóðvegi eitt kemur til greina frá Mýrdalssandi að Þjórsá, þ.e. eftir þjóðvegi eitt og í gegnum þéttbýlið í Vík, á Hvolsvelli og Hellu en fram kemur að eftir það séu fjórar akstursleiðir mögulegar til Þorlákshafnar. 

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert