Ágætur afrakstur dúntekju í sumar

Æðarkolla með unga.
Æðarkolla með unga. Ljósmynd/Bogi Þór Arason

„Varpið hefur verið mjög gott um allt land og jafnvel yfir meðallagi,“ segir Margrét Rögnvaldsdóttir, formaður Æðarræktarfélags Íslands.

Margrét segir að afrakstur dúntekju hafi almennt verið ágætur hjá æðarbændum í sumar. „Á nyrstu stöðum, svo sem á Melrakkasléttu og á Skaga, hafa verið miklar rigningar og frekar kalt og þar hefur þetta hangið í meðaltalinu. En annars staðar láta menn mjög vel af varpinu.“

Formaðurinn segir það ánægjuefni að ekkert hafi orðið vart við fuglaflensu í æðarfugli á þeim stöðum sem skráðir eru með æðarrækt á Íslandi.

Þeir eru 382 talsins, líkt og sjá má á meðfylgjandi korti, en fyrr á árum voru um 500 staðir skráðir með æðarrækt. Æðarfugl verpir á fleiri stöðum en skráðir eru í dag en þeim er ekkert sinnt að sögn Margrétar.

Flestir bændur hafa nú þurrkað dúninn og sent hann frá sér í hreinsun, segir Margrét aðspurð. Búast má við því að meðalverð á æðardúni verði á bilinu 190-200 þúsund krónur á kílóið og hefur hækkað frá fyrra ári. Enn á þó eftir að reikna út verðið og verður það gert fyrir aðalfund Æðarræktarfélags Íslands síðar í þessum mánuði.

„Salan tók við sér í lok síðasta árs en árin þar á undan gekk illa og verðið hrundi. Í dag gengur vel að selja og verðið hefur hækkað,“ segir Margrét

Hún segir enn fremur að það færist í vöxt að vörur séu framleiddar úr æðardúni hér á landi í stað þess að selja dúninn beint úr landi sem hráefni. Meiri verðmæti eru í því að selja fullunna vöru og fleiri selja nú æðardúnssængur, -kodda, -húfur og -hálskraga, svo eitthvað sé nefnt, á netinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert