Bað heimsmeistarann að nota heyrnartól

Tyson Fury og Greipur Gíslason.
Tyson Fury og Greipur Gíslason. Samsett mynd

Greipur Gíslason var staddur á Kaffi Ól-e í miðbæ Reykjavíkur þegar hann fann sig knúinn til að gefa sig á tal við ókunnugan mann sem sat þar í sófa og horfði á myndbönd í símanum. Hljóðið úr síma hans ómaði um allan staðinn og Greipur bað manninn því um að nota heyrnartól, enda væri þetta talsvert truflandi.

Maðurinn baðst afsökunar og hætti í símanum. Skömmu seinna komu félagar hans inn á staðinn og settust hjá honum. Mennirnir töluðu með breskum hreim og fengu sér te.

„Þetta var svolítið skrýtið, þeir voru allir klæddir í eins galla og það stóð „Gypsy king“ á göllunum þeirra. Ég hugsaði að það væri eitthvað grín í gangi, þetta hlyti að vera steggjun.“

Með merkta derhúfu „Tyson Fury“

Allt í einu fóru heilu fjölskyldurnar að vinda sér upp að hópnum og óska eftir að fá mynd með ókunnuga manninum í símanum. Greipur áttaði sig þá á því að maðurinn væri frægur. 

Hann bar derhúfu sem á stóð „Tyson Fury“. Greipur hóf því rannsóknarvinnu, þar sem hann sat á kaffihúsinu, fáeinum metrum frá hópnum. 

„Ég fattaði að ég átti að kannast við nafnið. Svo sá ég að hér var kominn margfaldur heimsmeistari í hnefaleikum. Því næst kíkti ég á Twitter hjá honum til þess að athuga hvort hann hafi verið búinn að birta einhverjar myndir frá Íslandi.“

Tyson Fury er margfaldur heimsmeistari í hnefaleikum en hefur nú …
Tyson Fury er margfaldur heimsmeistari í hnefaleikum en hefur nú lagt boxhanskana á hilluna. AFP

Að tilkynna lok ferilsins

Þá sá Greipur að hnefaleikakappinn hafði verið að tilkynna um lokin á ferli sínum, á Twitter, á sama tíma og Greipur hafði verið að biðja hann um að nota heyrnartól eða hætta í símanum. 

„Svo sá ég líka að hann átti afmæli og þá áttaði ég mig á því að myndböndin sem hann var að hlusta á, höfðu verið afmæliskveðjur til hans. Ég ákvað að forða mér hratt út og koma mér í öruggt skjól, enda nýbúinn að þagga niður í hnefaleikamanni. Svo birti ég tíst þar sem ég bað hann afsökunar.“

Greipur kveðst ekki enn hafa fengið svar við því tísti. 

Hann viðurkennir að vera lítill aðdáandi hnefaleika og því ef til vill ekki skrýtið að hann hafi ekki áttað sig strax, þrátt fyrir að kappinn væri vel merktur. 

„Ég komst svo að því að hann er kallaður Gypsy king.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert