Laxárdalsvegur endurbættur

Vegurinn í dag er holóttur og mjór á köflum.
Vegurinn í dag er holóttur og mjór á köflum. Ljósmynd/Mannvit

Opnuð hafa verið hjá Vegagerðinni tilboð í endurbyggingu Laxárdalsvegar á milli Hrútafjarðar og Hvammsfjarðar. Endurbygging vegarins yfir Laxárdalsheiði hefur staðið yfir í áföngum frá árinu 2009.

Þegar verkinu lýkur verður það mikil vegabót fyrir vegfarendur.

Kaflinn, sem nú verður endurbyggður, er 7,8 kílómetra langur.

Vegurinn verður að mestu endurbyggður í vegstæði núverandi vegar með nokkrum lagfæringum á plan- og hæðarlegu. Á vegkaflanum er einbreið brú yfir Laxá sem ekki á að endurnýja. Nýr vegur er lagaður að henni. Verkinu skal að fullu lokið 1. október 2023.

Fimm tilboð bárust í verkið. Lægst bauð VBF Mjölnir ehf., Selfossi, tæpar 328,8 milljónir króna. Litlu munaði á því og næstlægsta tilboðinu sem var frá Þrótti ehf., Akranesi, sem var 329,5 milljónir. Áætlaður verktakakostnaður var 329,5 milljónir króna. Nú er verið að yfirfara tilboðin hjá Vegagerðinni.

Heildarlengd Laxárdalsvegar er 35,9 kílómetrar, milli Búðardals og Borðeyrar. Öðrum megin er Vestursvæði Vegagerðarinnar og Norðursvæði hinu megin, þ.e. Hrútafjarðarmegin. Þessi ákveðna framkvæmd er þeim megin.

Byrjað var á endurbótum á Laxárdalsvegi árin 2009-2010 en komið var slitlag á 4,1 kílómetra áður. Alls var unnið við 3,6 km í þeim áfanga. Annar áfangi var unnin 2016-2017 en þá voru endurbyggðir 5,9 km. Þriðji áfangi var síðan unninn 2018 -2019 en þá voru endurbyggðir 4,4 km.

Vegarkafli sem búið er að endurbyggja.
Vegarkafli sem búið er að endurbyggja. Ljósmynd/Mannvit

Samningar við landeigendur

Loks er eftir að endurbyggja á Vestursvæði 10,3 km. Samningaviðræður við landeigendur hafa staðið yfir en ekki er ljóst hvenær þeim verður lokið, samkvæmt upplýsingum G. Péturs Matthíassonar, upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar.

Í umhverfismatsskýrslu fyrir verkið, sem Mannvit vann fyrr á þessu ári, kemur fram að brýrnar yfir Laxá í Dölum og Laxá í Hrútafirði verða óbreyttar, einbreiðar. Á þeim kafla sem nú verður ráðist í er brúin yfir Laxá í Hrútafirði.

Í gangi hefur verið átak sem felst í því að fækka einbreiðum brúm á vegum. Því var G. Pétur spurður að því hverju sætti að ekki væri byggð tvíbreið brú yfir ána nú.

„Brúin á Laxá er með fjögurra metra breiðri akbraut og 16 metrar að lengd með góðan burð sem við látum duga,“ segir G. Pétur í skriflegu svari. „Hins vegar munum við setja upp blikkljós þar sem brúin er einbreið. Átakið breikkun brúa miðast við umferðarmestu vegina, aðallega Hringveginn. Fjármögnun á þessum brúm er ekki fyrir hendi, en það kemur að þeim þótt síðar verði. En hér er tekið mið af alls kyns atriðum, svo sem öryggi, aldri, umferð og ástandi og samspili þessara þátta.“

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að 140-170 bílar fara að jafnaði yfir Laxárdalsheiði á sólarhring.

Brekkur erfiðar á vetrum

Í fyrrnefndri matsskýrslu Mannvits kemur fram að sá hluti Laxárdalsvegar, sem eftir er að laga, sé holóttur og frekar mjór. Meðfram veginum er víða gras- og mólendi og sums staðar mýrlendi. Á köflum eru brattar brekkur sem reynast erfiðar á veturna en vegurinn fer hæst í um 215 metra yfir sjávarmál. Vegna umfangs verksins megi reikna með að nokkur fjöldi starfa skapist á framkvæmdartíma. Reikna megi með um 15-20 störfum á verktímanum.

Skipulagsstofnun yfirfór matsáætlun Mannvits. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna var það niðurstaða Skipulagsstofnunar, sem birt var í mars sl., að fyrirhuguð framkvæmd væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því skyldi framkvæmdin ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »