Lítur björtum augum til skólaársins

Hér er verið að flota gólfið í Hagaskóla.
Hér er verið að flota gólfið í Hagaskóla. mbl.is/Hákon Pálsson

Framkvæmdir standa enn við Hagaskóla í Reykjavík vegna myglu sem greindist í skólanum í nóvember á síðasta ári. Grunur vaknaði í lok október um að ekki væri allt með felldu í norðausturálmu skólans og eftir rannsókn var ákveðið að rýma tvær álmur skólans og finna bráðabirgðahúsnæði fyrir nemendur 8. og 9. bekkjar.

Eftir nánari skoðun á húsnæðinu var ákveðið og samþykkt í borgarráði í apríl að rífa tvær elstu álmur skólans og byggja nýtt og er áætlaður kostnaður við framkvæmdina 4.600 milljónir króna.

Ingibjörg Jósefsdóttir skólastjóri Hagaskóla segir að áætlað sé að framkvæmdir standi yfir þetta skólaár.

Verklok áætluð haustið 2023

„Við notum bara nýjustu álmuna sem byggð var um 1990 og þar mun kennsla 10. bekkjar fara fram á skólaárinu, en 8. og 9. bekkur verða áfram í bráðabirgðahúsnæðinu í Ármúla 28-30.“

Hún segir að reynt sé að draga eins og mögulegt er úr raski fyrir nemendur enda hafi foreldrafélagið lýst yfir áhyggjum af ástandinu og reynt sé að bregðast við því af mætti.

Skólarúta fer með nemendur í Ármúlann og aftur til baka að skóladegi loknum. „Við prófuðum þetta frá áramótum á síðasta vetri og við þurftum aðeins að venja börnin við, en það var farið að ganga mjög vel undir vorið.“

Hún segir að allar verkgreinar séu kenndar í Ármúla. „Þetta ástand hefur haft áhrif á valfög nemenda og núna í vetur verður heimilisfræði aðeins kennd í 8. bekk, sem er mjög leiðinlegt því þetta er vinsælt fag hjá okkur.“

Hún segist þó horfa björtum augum til skólaársins. „Þetta er ástand sem við breytum ekki. Við erum betur sett en í fyrra, því við erum núna með öruggt bráðabirgðahúsnæði í Ármúlanum, en ekki á þessu flakki sem við vorum á síðasta ári fram yfir áramót. Samanborið við það rót upplifum við ákveðið öryggi.“

Hún segir að á fundi á fimmtudag hafi verið farið yfir stöðuna með verktaka og þar hafi komið fram að áætluð verklok séu fyrir næsta haust. „Það er samt mikið talað um erfið aðföng í byggingageiranum, en ég treysti því að þetta gangi eftir. Það er ekkert í boði annað en að vera bjartsýnn.“

Kominn tími á endurbætur

Mygla virðist vera landlægt vandamál í skólakerfinu en mikið hefur verið fjallað um málefni Fossvogsskóla og núna síðast í Myllubakkaskóla í Reykjanesbæ. Mygla hefur komið upp í mun fleiri skólum bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg, segir skólabyggingar borgarinnar á mismunandi aldri.

„Það er kominn tími á verulegar endurbætur og viðhald í mörgum skólabyggingum og borgin hefur gert áætlun um viðhald og því miður hafa sums staðar orðið skemmdir vegna raka sem valda myglu og við því er borgin að bregðast eftir því sem þessi mál koma í ljós. Þetta er verkefni sem borgin er að taka núna fastari tökum en gert hefur verið til margra ára.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »