Von úti um sumarveður í ágúst

Gera má ráð fyrir 8 til 10 stiga hita að …
Gera má ráð fyrir 8 til 10 stiga hita að jafnaði næstu tíu daga, á suðvestanverðu landinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Von um að sumarið komi með síðari hluta ágústmánaðar, er senn á enda, ef marka má tíu daga spá Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar. Spáð er bæði skarpara og kaldara veðri næstu tíu daga en verið hefur síðustu vikur. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greinir frá þessu. Hann segir þó ekki víst að sumarið sé þar með búið. „Við sjáum ekki fram í september.“

Geri hagstæðar vindáttir í september, ætti að vera af nægu sumarlofti að taka við austurströnd Norður-Ameríku. Því sé ekki hægt að útiloka hlýindakafla framan af í september. 

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

Svalara frá og með deginum í dag

Sumarveðrátta hefur verið ágæt norðan- og austanlands síðustu vikuna, að mati Einars.  Hámarkshiti flesta daga hefur náð um eða yfir 20 gráðum.

Ekki verður það sama sagt um suður- og vesturhluta landsins. Þar hefur verið þungbúið, einkum þegar blæs úr suðri og suðvestri. Frá og með deginum í dag verður smám saman svalara í landinu.

Rok og rigning um miðja vikuna

Spáð er stroku af mildu lofti og skilum djúprar lægðar úr suðvestri um miðja vikuna. Það þýðir að loft hlýnar eilítið, en á móti kemur hvassviðri úr suðaustanátt og rigning á sunnanverðu landinu. 

Þeirri lægð er spáð til austur fyrir sunnan landið og beinir í lokin til okkar lofti úr norðri og norðvestri. 

Fyrir norðan kann að haldast þurrt þrátt fyrir lægðina.

8 til 10 stig að jafnaði á suðvesturhorninu

Gera má ráð fyrir 8 til 10 stiga hita að jafnaði næstu tíu daga, á suðvestanverðu landinu. Á hálendinu er við búið að hiti verði í kringum 4 til 6 stig. Fyrir norðan og austan verður hitinn breytilegur „en svalir dagar þegar frá líður.“

Eftir 20. ágúst fer að hausta í háloftunum, ef marka má langtímaspár, einkum yfir Grænlandi. 

Þá bendir Einar á að sjá megi stækkandi bláan blett með lágri þykkt, sem sé merki um kólnandi veður á norðurhjara jarðar, enda sól tekin að lækka á lofti. 

mbl.is