Hafði hægðir á gólfinu en stal engu

Töluvert var um innbrot í nótt.
Töluvert var um innbrot í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynnt var um innbrot og rúðubrot í fyrirtæki í Árbænum í nótt. Sá sem brotist hafði inn var farinn þegar lögregla kom á vettvang. Engu var stolið, en viðkomandi hafði brotið rúðu, farið inn og haft hægðir á gólfið og látið sig svo hverfa.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tveir voru handteknir og færðir á lögreglustöð grunaðir um þjófnað á reiðhjólum. Voru þeir látnir lausir að lokinni skýrslutöku.

Gleymdi baðkarinu

Slökkvilið var kallað til vegna elds í ruslatunnu í Reykjavík. Vel gekk að slökkva eldinn. Að auki var tilkynnt um eld í gróðri við Rauðavatn og kom slökkvilið á vettvang og slökkti eldinn.

Þá var tilkynnt um ofurölvi mann með ónæði við Hótel Hilton. Manninum var vísað frá af lögreglu.

Einstaklingur á þriðju hæð í fjölbýli hafði látið renna í bað og gleymt sér og þannig flæddi úr baðkarinu. Slökkvilið kom á vettvang og hreinsaði íbúðina, en lögreglu hafði borist tilkynning um vatnsleka í húsinu. 

Vistaður í fangaklefa 

Í Hlíðunum í Reykjavík var tilkynnt um innbrot og þjófnað í fyrirtæki þar sem innbrotsþjófurinn stal peningakassa. Var hann handtekinn skömmu síðar og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Einnig var brotist inn í verslun í Múlunum. Innbrotsþjófurinn reyndi að hlaupa burt af vettvangi en lögreglumenn hlupu hann uppi og var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Stolnir gaskútar og dósir

Í Hafnarfirði var tilkynnt um þjófnað á gaskútum.

Lögreglu barst tilkynning um tvo einstaklinga með fullar innkaupakerrur af dósum. Í ljós kom að búið var að brjóta læsingu á dósagám til styrktar Skátunum og tæma hann. Lögregla lagði hald á innkaupakerrurnar og dósirnar og einstaklingarnir lausir að lokinni skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert