Lægðar að vænta á miðvikudag

Léttskýjað verður þó í dag á sunnan- og vestanverðu landinu.
Léttskýjað verður þó í dag á sunnan- og vestanverðu landinu. Eggert Jóhannesson

Léttskýjað verður á sunnan- og vestanverðu landinu landinu í dag. Viðbúið er að hiti verði á bilinu 6 til 15 stig, hlýjast syðst. 

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings. 

Búast má við kaldri norðvestan vindátt í dag þar sem vindur nær þremur til tíu metrum á sekúndu á norðan- og austanverðu landinu. Þar er einnig spáð rigningu.  

Allhvöss suðaustanátt

Á morgun verður svo suðvestlæg átt yfir landinu. Þá má gera ráð fyrir skúrum á vestaverðu landinu en bjart verður mestmegnis annars staðar. Ætla má að vindur nái 3 til 8 metrum á sekúndu. Hiti ætti að verða 9 til 14 stig. 

Á miðvikudag kemur lægð með rigningu og sums staðar allhvassri suðaustanátt en úrkomuminna á norðaustanverðu landinu. Hiti 8 til 13 stig.

Lægðin verður suður af landinu á fimmtudag. Ákveðin austlæg átt með rigningu á sunnanverðu landinu og talsverðri úrkomu á Suður- og Suðausturlandi. En lengst af þurrt og bjart fyrir norðan. Hiti breytist lítið.

Á föstudag verður norðaustanátt og víða rigning. Hlýjast verður svo sunnan heiða um helgina, en þá má búast við norðanátt með skúrum og 8 til 15 stiga hita.

mbl.is