Átti að greiða þrettán milljónir

Bílaleigubíllinn átti að kosta um 130 þúsund krónur.
Bílaleigubíllinn átti að kosta um 130 þúsund krónur. mbl.is/Golli

Viðskiptavinur Arion banka var í tvígang beðinn um að staðfesta greiðslu upp á tæpar 13 milljónir króna þegar hann hugðist greiða fyrir bílaleigubíl í Bandaríkjunum. Bílaleigubíllinn átti að kosta um 130 þúsund krónur. Maðurinn hefur óskað eftir skýringum frá Arion banka og sent lögreglu ábendingu um þetta.

Umræddur maður, sem vill ekki láta nafns síns getið, segir að fyrra tilvikið hafi verið á fimmtudag í síðustu viku. Hann var í samskiptum við ferðaskrifstofu vegna bókunar á bílaleigubíl og var svo beðinn að staðfesta greiðsluna í símanum sínum.

Þegar staðfestingarbeiðnin frá Arion kom var upphæðin margfalt hærri en hún átti að vera. Þar sem komið var fram undir lok dags ákvað maðurinn að reyna að nýju daginn eftir.

Þá endurtók sagan sig hins vegar og aftur bað Arion hann um að staðfesta greiðslu upp á tæpar 13 milljónir króna. Þá tók maðurinn skjáskot af beiðninni, hætti við greiðsluna og setti sig í samband við bankann.

Varhugaverðar villur á tímum netglæpa

„Ég fékk engar skýringar af viti, aðeins að þetta gæti verið einhver kommuvilla hjá Valitor. Ég óskaði eftir því að öryggisdeildin tæki þetta föstum tökum. Þá hringdi ég í lögregluna og var bent á að senda póst á „cyber crime“.Ég sendi erindi þangað en lögreglan hefur ekkert haft samband við mig,“ segir maðurinn í samtali við Morgunblaðið.

Hann kveðst furða sig á því að á sama tíma og lögreglan varar við netglæpum í fjölmiðlum séu að koma upp raunverulegar villur hjá bönkunum sjálfum.

„Mér fannst tekið frekar kæruleysislega á þessu,“ segir maðurinn að endingu.

Gott að korthafar sýni árvekni í viðskiptum

Haraldur Guðni Eiðsson, forstöðumaður samskiptasviðs Arion banka, segir að því miður hafi sumir erlendir færsluhirðar ekki uppfært sinn hugbúnað til að uppfylla kröfur Visa um hvernig miðla skuli upplýsingum til Visa um tiltekin viðskipti.

„Það getur leitt til þess að upphæðir viðskipta birtist ekki rétt þegar viðskiptavinur á að samþykkja viðskiptin, hvort sem það er í gegnum app eða SMS. Villan felst í því að seljandi gerir ráð fyrir aurum og bætir tveimur tölustöfum við upphæðina, svo hún virðist 100 sinnum hærri en hún í raun er,“ segir hann.

„Það er gott þegar korthafar sýna árvekni í viðskiptum og hafa samband vegna þessa því í kjölfarið getum við upplýst Visa um þá færsluhirða sem eiga eftir að uppfæra hugbúnað sinn, þannig að hann samræmist reglum Visa. En sem betur fer þá hafa langflestir erlendir færsluhirðar uppfært sinn hugbúnað og því er þetta sjaldgæft,“ segir Haraldur enn fremur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »