Fyrir rúmum áratug kynntist þær Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell í kennaranámi. Ekki leið á löngu þar til þær voru búnar að skrifa saman tvær skáldsögur til að auka lestur ungmenna og stofna bókaforlag sem gefið hefur út á þriðja hundrað bóka.
Í Dagmálum segir Marta að þær hafi svo útskrifast eftir meistaranámið vorið 2011 og þá sannfærðar um það að það vantaði bækur, spennandi bækur fyrir krakka. „Við vorum búnar að skrifa svo mikið saman og höfðum báðar gaman af fantasíum svo við sköpuðum Rökkurhæðir,“ segir Marta, en Rökkurhæðir eru úthverfi borgarinnar Sunnuvíkur á hæð fyrir ofan bæinn þar sem ekkert er lengur nema sundurtætt fjölbýlishúsalengja.
Hvorug þeirra hafði þá skrifað annað en námsverkefni og ritgerðir, en þær settust niður og skrifuðu tvær skáldsögur sem voru fyrstu bækurnar í söguflokknum um Rökkurhæðir.
„Við byrjuðum bara þarna, eins og það sé ekkert mál, settumst niður með konsept og hugmynd og það tókst að skrifa tvær bækur um sumarið. Þá kviknaði spurningin hvað við ætluðum að gera við bækurnar, hvert við ætluðum að fara með þær. Það endaði svo með því að við ákváðum að fara alla leið með því að stofna útgáfu og gefa þær út sjálfar og þannig vað Bókabeitan til, í september 2011.“
Upphaflega hugðust þær Marta og Birgitta að gefa út bækur fyrir ungmenni gefur Bókabeitan nú út bækur fyrir alla aldurshópa, frá Hvolpasveitinni í harðsoðna glæpareyfara. Marta segir að þær brenni fyrir barnabókum, en slík útgáfa sé mjög dýr og markaðurinn lítill. Því hafa þær gefið út ýmislegt annað til að freista þess að láta útgáfuna standa undir sér, en þó aldrei nema þær bækur sem þær hafi áhuga á að fylgja eftir.