Fólk noti Strætó á Menningarnótt

Frítt verður í strætó allan daginn á Menningarnótt.
Frítt verður í strætó allan daginn á Menningarnótt. mbl.is/Valli

„Skutlur“ á vegum Strætó munu aka milli Laugardalshallar og Hallgrímskirkju á Menningarnótt og hvetur Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, fólk á bíl til þess að leggja í grennd við Laugardalshöll og nýta sér skutluþjónustuna í bæinn.

„Það er mjög mikilvægt að fólk nýti sér þetta og sé ekki bara að hrúgast allt í hefðbundið strætókerfi vegna þess að það ræður illa við alla, sama hvað við gerum, þannig að það er um að gera að taka skutluna,“ segir Jóhannes í samtali við mbl.is.

Lokað verður fyrir akandi umferð í miðborginni þegar Menningarnótt fer þar fram á laugardag. Frítt verður í strætó allan daginn þangað til akstur á hefðbundnum næturstrætó tekur við um eittleytið, en ekki er frítt í hann.

Koma út öllum vögnum þegar þörf er á

Yfir daginn munu vagnar aka samkvæmt hefðbundinni laugardagsáætlun en aukavagnar verða sendir inn á leiðir þegar álagið verður mikið.

„Við munum reyna að sinna eftirspurninni og okkur hefur gengið ágætlega að sinna henni á Menningarnótt, þá erum við með alveg sérstakt kerfi í gangi og reynum að koma öllum okkar vögnum út þegar þörf er á,“ segir Jóhannes.

Leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu verður rofið klukkan hálf ellefu um kvöldið og að lokinni flugeldasýningu munu vagnar flytja gesti úr miðborginni.

„Þetta eru sjö leiðir sem fara í helstu hverfi höfuðborgarinnar.“

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.
Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó. mbl.is
mbl.is