Hleypur í minningu mömmu sinnar

Ásgeir var aðeins tíu ára þegar móðir hans lést, þessi …
Ásgeir var aðeins tíu ára þegar móðir hans lést, þessi mynd var tekin árið 2012. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var með það markmið að safna 200 þúsund krónum fyrir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess, en ég hef nú þegar safnað 217 þúsundum og enn er að bætast við, sem er frábært.“

„Ég vil auðvitað safna sem mestu fyrir Ljósið. Mamma fór oft þangað þegar hún var veik og var mjög ánægð með starfið þar,“ segir Ásgeir Skarphéðinn Andrason, 14 ára piltur sem ætlar næstkomandi laugardag að hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu til minningar um mömmu sína, Ingveldi Geirsdóttur, en hún lést úr krabbameini fyrir þremur árum, vorið 2019.

Verður ekki mikið mál

„Við Kiddi ætlum að hlaupa tíu kílómetra saman og þetta verður ekki mikið mál fyrir mig. Ég er í ágætu formi enda æfi ég fótbolta hjá Fylki og hef ekkert verið að æfa mig neitt sérstaklega fyrir þetta hlaup. Ég veit aftur á móti ekki með Kidda, hann er orðinn gamall og lúinn, svo ég veit ekki hvort hann getur hlaupið tíu kílómetra. Það kemur í ljós á laugardaginn hvernig þetta fer,“ segir Ásgeir og hlær og á þar við pabba sinn, Kristin Þór Sigurjónsson.

„Kiddi átti þessa hugmynd, að ég myndi líka hlaupa og safna peningum fyrir Ljósið, eins og hann ætlar að gera, og ég sló til,“ segir Ásgeir, sem er mjög þakklátur öllum þeim sem hafa heitið á hann með því að leggja inn hlaupastyrk í hans nafni hjá Ljósinu.

Ásgeir æfir fótbolta með Fylki og mun því ekki eiga …
Ásgeir æfir fótbolta með Fylki og mun því ekki eiga í vandræðum með að hlaupa 10 kílómetra. Ljósmynd/Aðsend

„Sterkasta manneskja sem ég þekki“

Ásgeir segist hugsa til Ingveldar mömmu sinnar á hverjum degi, en hann var aðeins tíu ára þegar hún lést.

„Hún var sterkasta manneskja sem ég þekki. Hún var geggjað góð mamma, skemmtileg og góð fyrirmynd, mjög þrautseig og svo var hún mikil íþróttamanneskja, fyrrverandi glímudrottning.“

Þeir sem vilja heita á Ásgeir og styðja Ljósið í leiðinni geta farið inn á slóðina hlaupastyrkur.is og flett upp nafninu Ásgeir Skarphéðinn Andrason, undir flipanum hlauparar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert