Kartöfluakrar kolsvartir eftir næturfrost

„Ég er í þessum töluðu orðum að taka upp kartöflur …
„Ég er í þessum töluðu orðum að taka upp kartöflur og sumir akrar eru kolsvartir og þá fellur kálið nánast alveg.“ Ljósmynd/Markús Ársælsson

„Næturfrost var í nótt og töluvert og það stórsér á kartöflugrösum, sem þýðir þá að það verður mun minni uppskera en horfur voru á,“ segir Markús Ársælsson kartöflubóndi í Þykkvabæ í samtali við mbl.is.

Greint var frá því snemma í morgun að jörð hafi frosið víða um land í nótt, en hiti við jörðu mældist lægst -3,4 gráður.

Lítið hægt að bregðast við

Markús segir að menn geti alltaf átt von á næturfrosti á þessum árstíma. „Þegar kominn er ágúst þá geta alltaf komið næturfrost, jafnvel hafa komið næturfrost í byrjun júlí líka,“ segir Markús.

„Næturfrost var í nótt og töluvert og það stórsér á …
„Næturfrost var í nótt og töluvert og það stórsér á kartöflugrösum, sem þýðir þá að það verður mun minni uppskera en horfur voru á,“ segir Markús. Myndin er úr safni. mbl.is/Hanna

Hvernig er þá brugðist við þessu?

„Menn bregðast ekki við þessu á einn eða annan hátt. Kálið fellur, grösin falla og það verður bara minni uppskera. Það er bara þannig.“

Grænir akrar verða svartir

„Ég er í þessum töluðu orðum að taka upp kartöflur og sumir akrar eru kolsvartir og þá fellur kálið nánast alveg.

Markús útskýrir að akrarnir verði svartir þegar uppskeran þornar upp og allt líf í blaðinu hverfur en þetta gerist af völdum næturfrosts. 

„Fólk gerir sér ekki almennilega grein fyrir þessu fyrr en það sér þetta. Sumir eru með kálgarða heima hjá sér þar sem allt er grænt og fallegt en svo sjá menn heilu akrana, heilu hektarana kolsvarta yfir að líta.“

Töluvert tekjutap fyrir bændur

Markús segir að ágúst sé yfirleitt aðaluppsprettutíminn og sé þetta því töluvert högg fyrir bændur. „Nú er miður ágúst svo mikill sprettutími hverfur. Það hefði átt að spretta í hálfan mánuð í viðbót en það gerist einmitt mest á þessum árstíma í kartöfluuppsprettunni.“

Ljósmynd/Markús Ársælsson

„Heildarmagnið sem kemur upp úr görðunum verður nú töluvert minna en það hefði getað orðið hefði þetta fengið að standa til mánaðamóta, jafnvel fram í september. Svo þetta er töluvert mikið tekjutap fyrir bændur.“

Skellur tvö ár í röð

Mygla herjaði á uppskeru bænda í fyrra og hefur að sögn Markúsar sömu áhrif á uppsprettuna og næturfrostið, að því leyti að það dregur úr sprettunni.

„Þetta var ekkert sérstakt ár í fyrra svo það er svolítið vont að fá skell á bændur tvö ár í röð. En þetta er það sem menn vilja lifa við. Þá er spurning hvort að bændasamtökin séu með vinnustaðasálfræðing,“ segir Markús í léttum tón.

mbl.is