Lentu í Keflavík vegna farþega sem lét ófriðlega

Flugvélin var á leið til Kanada en sneri við yfir …
Flugvélin var á leið til Kanada en sneri við yfir Grænlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Pólska flugfélagið LOT þurfti að lenda á Keflavíkurflugvelli af læknisfræðilegum ástæðum eins farþega, á leið sinni frá Varsjá til Toronto á fimmtudag, þetta staðfestir staðgengill upplýsingafulltrúi Isavia.

Flugvélin var komin yfir Grænland en sneri þá við og lenti í Reykjavík laust eftir klukkan þrjú síðdegis. Þá þurfti vélin að fljúga aftur til Varsjár og farþegum var útvegaður gististaður og farmiðar með næsta flugi, daginn eftir. 

Handtekinn á Keflavíkurflugvelli

Í frétt Simpleflying um málið segir að farþeganum, sem sé kanadískur ríkisborgari, hafi verið neitað um áfengi. Hann hafi brugðist illa við og veist að áhöfninni. Aðrir farþegar hafi þurft að skerast í leikinn og hann hafi gert tilraun til að opna dyrnar að flugvélinni. Þá hafi hann hann skyrpt á aðra farþega, kastað vatnsflöskum og látið illa. 

Grettir Gautason, staðgengill upplýsingafulltrúa Isavia, segir að ekki hafi verið um flugdólg að ræða, heldur hafi læknisfræðilegar ástæður viðkomandi legið að baki því að lenda þurfti vélinni og koma farþeganum frá borði. 

Lögreglan á Suðurnesjum staðfestir að einstaklingur hafi verið handtekinn þegar flugvélin lenti, vegna þess að hann hafi hegðað sér ófriðlega um borð. Þá var skýrsla tekin af viðkomandi. 

mbl.is