Menningarnótt verði jafnvel stærri en áður

Menningarnótt var síðast haldin árið 2019, og segir Guðmundur að …
Menningarnótt var síðast haldin árið 2019, og segir Guðmundur að tilhlökkunin fyrir laugardeginum sé mikil. mbl.is/Hari

„Við erum rosalega spennt og höfum fundið fyrir mikilli ánægju og eftirvæntingu hjá fólki sem er að koma að hátíðinni,“ segir Guðmundur Birgir Halldórsson, viðburðastjóri Menningarnætur, í samtali við mbl.is.

Menningarnótt var síðast haldin árið 2019, og segir Guðmundur að tilhlökkunin fyrir laugardeginum sé mikil.

„Ég myndi halda að hún verði jafnvel stærri en áður af því að dagskráin er mjög mikil, skemmtileg og fjölbreytt og allir sem hafa verið með í gegnum árin virðast vera að taka þátt núna. Eftir þessa pásu virðist fólk vera til í smá stuð.“

Nokkur hundruð atriði

Þá hafi mjög margar umsóknir um að vera með viðburð á Menningarnótt borist. „Það eru mjög margir sem taka þátt, þetta eru nokkur hundruð atriði.“

Guðmundur segir erfitt að gera upp á milli viðburða en tekur sérstaklega fram karnival DJ Margeirs og opið hús í Hússtjórnarskólanum.

„Mér finnst alltaf gaman að sjá DJ Margeir með sitt sett, og svo verður opið hús í Hússtjórnarskólanum og ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því þannig að ég er að spá í að skella mér þangað.“

Engin ástæða til að vera á bíl

Þá bendir hann á að engin ástæða sé til að vera á bíl, enda lokað fyrir akandi umferð auk þess sem frítt verður í strætó.

„Við erum síðan búin að vera að vinna með rafskútufyrirtækjunum og það verður ekki hægt að keyra á rafskútum alveg miðsvæðis, en það verða sérstök stæði hérna í útjaðrinum þar sem fólk getur lagt þeim. Þannig að þú kemst ansi langt á rafskútunni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert