Símstöðin fær nýtt útlit

Húsið var málað að utan með hvítri málningu, en fær …
Húsið var málað að utan með hvítri málningu, en fær síðan aftur sinn upprunalega gráa lit. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðasamtökin Veraldavinir ljúka bráðum við framkvæmdir á gamla símstöðvarhúsinu í Brú í Hrútafirði, en húsið verður nýtt sem aðstaða fyrir erlenda sjálfboðaliða samtakanna. 

Veraldavinir gerðu leigusamning til 20 ára við fasteignaþróunarfélagið Festi árið 2020, en samtökin hafa lokið við framkvæmdir innan í húsinu og áætla að vinna utan á húsinu ljúki í haust. 

Húsið tekið í gegn 

Þórarinn Ívarsson, framkvæmdastjóri Veraldavina, segir að húsið hafi verið í mikilli niðurníðslu en samtökin stefni að ná húsinu í sitt upprunalega form.

„Það tók alveg á að ganga frá húsinu þar sem allar vatns- og rafmagnslagnir voru niðri, en það er nú allt saman klárt,“ segir Þórarinn.

Hann segir að gera megi ráð fyrir að húsið verði tilbúið í júlí 2023, en þá verða þrjú ár liðin frá því samtökin tóku við því. 

Samtökin fá til sín erlenda sjálfboðaliða sem starfa við ýmis umhverfisverkefni hér á landi eins og skógrækt og að hreinsa strandlengjur. Einnig standa samtökin fyrir fræðslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni.

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á húsinu síðastliðin tvö ár.
Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á húsinu síðastliðin tvö ár. Ljósmynd/Aðsend

Hvetja fólk til að heimsækja húsið

Húsnæðið verður nýtt sem aðstaða fyrir sjálfboðaliða á sumrin en samtökin bjóða hagsmunasamtökum símstöðvarinnar afnot af húsinu yfir veturinn.

„Húsið hefur fengið aðeins of lítið af heimsóknum en við hvetjum nú fólkið sem hefur barist fyrir uppihaldi símstöðvarinnar til að kíkja við.“

Þórarinn segir hagsmunasamtök á Brú í Hrútafirði hafa sýnt óánægju sína á Facebook við þeirri ákvörðun að mála húsið hvítt, en þá hafi áætlun Veraldavina alltaf verið að mála húsið fyrst hvítt og svo í sínum upprunulega lit, gráum.  

Áhugamenn sáttir við endurbyggingu

Þórir Steinþórsson, forystumaður áhugamanna um Brú í Hrútafirði, segir hópinn vera ánægðan með þá endurbyggingu sem Veraldarvinir hafa gert á húsinu. 

„Þetta hús á sér merka sögu, en símstöðin gegndi mikilvægu hlutverki í fjarskiptum og fór fyrst að draga úr starfsemi þegar sjálfvirka kerfið kom til landsins. “

Hann segir hópinn vera í góðu sambandi við Þórarinn og í sameiningu verði endurbygging á húsinu gerð í samræmi við upprunalegt form þess. 

Eitt herbergið í húsinu fyrir framkvæmdirnar...
Eitt herbergið í húsinu fyrir framkvæmdirnar... Ljósmynd/Aðsend
Eftir framkvæmdirnar var þessu rými breytt í notalegt svefnherbergi.
Eftir framkvæmdirnar var þessu rými breytt í notalegt svefnherbergi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is