Tilkynnt um fjóra menn að ráðast á einn

Enginn hefur gefið sig fram sem árásarþoli.
Enginn hefur gefið sig fram sem árásarþoli. mbl.is/Árni Sæberg

Tilkynnt var um skemmdarverk í skóla. Rúða var brotin en ekki er ljóst hvort tilgangurinn með innbrotinu hafi verið að stela einhverju. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Þá var tilkynnt um fjóra menn að ráðast á einn með höggum og spörkum. Enginn var á vettvangi þegar lögregla kom og enginn hefur enn gefið sig fram sem árásarþoli. 

Tveir ökumenn voru stöðvaðir í nótt við akstur án réttinda. Annar hafði verið sviptur og hinn ekki öðlast ökuréttindi.

Árekstur varð milli reiðhjóls og bifreiðar, meiðsli urðu á fólki en þau voru minniháttar. 

Tveir grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna

Maður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann var einnig með fíkniefni á sér. Til rannsóknar er hvort viðkomandi dveljist ólöglega á evrópska efnahagssvæðinu. Annar ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og án ökuréttinda.

Þá taldi lögregla ekki ástæðu til að haldleggja vespu, sem talið var að gæti verið stolin, en hvíldi fyrir utan hús innan umdæmis lögreglustjóra í Hafnafirði og Garðabæ. 

Lögregla fór á vettvang vegna ónæðis frá nágranna á sama svæði auk þess sem tilkynning barst um tvo menn að slást. ekki lá fyrir hvor átti upptökin og engar kærur hafa verið lagðar fram í málinu að svo stöddu. 

Krakkarnir hlupu hver í sína áttina

Tilkynnt var um krakka að sprengja flugelda við skóla en krakkarnir hlupu hver í sína áttina þegar lögreglu bar að. 

Minniháttar umferðaróhapp var svo við verslun innan umdæmis lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Þar kviknaði einnig eldur í ruslatunnu, við fyrirtæki, en að því er fram kemur í dagbók lögreglu var „málinu reddað,“ þegar lögregla kom á vettvang. 

Loks varð umferðaróhapp innan umdæmis lögreglu í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ, þar sem annar ökumanna stakk af frá vettvangi. Engin meiðsli urðu þó við óhappið. 

mbl.is