Uppsöfnuð þörf fyrir að koma saman í borginni

Einar Þorsteinsson kynnti dagskrá Menningarnætur á blaðamannafundi í dag.
Einar Þorsteinsson kynnti dagskrá Menningarnætur á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Hákon

Einar Þorsteinsson, starfandi borgarstjóri, telur að Menningarnótt verði enn fjölmennari en áður þar sem hátíðin hefur ekki farið fram síðustu tvö ár.

Einar kynnti dagskrá Menningarnætur á blaðamannafundi í dag, en hún verður haldin á laugardaginn.

„Menningarnótt hefur fallið niður núna tvö ár í röð vegna Covid og ég held að það sé mjög mikil uppsöfnuð þörf fyrir að koma saman í borginni,“ segir Einar í samtali við mbl.is að loknum fundi.

„Þetta er viðburður þar sem vinahópar og fjölskyldur gera sér ferð saman í borgina og það er svo margt í boði, öll söfnin, allir tónleikastaðir og mikið af útiviðburðum þannig að það verður mjög skemmtilegt að gera sér ferð.“

Borgin „misst af afmæli sínu“ tvö ár í röð

Einar telur að þátttakan í ár verði mjög góð og bendir á að gríðarlega mikil aðsókn hafi verið í Gleðigönguna, sem var gengin fyrr í mánuðinum.

„Vonandi verður veðrið gott, það er dásamlegt veður í dag og vonandi er það bara góðs viti. Það má ekki gleyma því líka að Menningarnótt er afmælishátíð Reykjavíkurborgar og verður núna haldin í 27. sinn og er orðin einn af lykilþáttunum í menningarstarfi borgarinnar.

Við erum að fagna afmæli borgarinnar og þegar maður hefur misst af afmæli sínu tvö ár í röð þá er um að gera að halda það með pompi og prakt,“ segir Einar að lokum.

mbl.is