Fundu tæplega 100 kíló af kókaíni í vörusendingu

Tæplega 100 kg af kókaíni var falið í vörusendingu á …
Tæplega 100 kg af kókaíni var falið í vörusendingu á leið til landsins. mbl.is/Hari

Þrír voru í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 14. september, í þágu rannsóknar lögreglu á innflutningi á miklu magni af fíkniefnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Einn til viðbótar sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins, en sá hefur verið færður í afplánun vegna annarra mála.

Um er að ræða tæplega 100 kíló af kókaíni sem var falið í vörusendingu á leið til landsins. Málið er tilkomið vegna frumkvæðisrannsókna á skipulagðri brotastarfsemi og miðar rannsókn þess vel, að því er segir í tilkynningunni.

Lögregla kveðst ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

mbl.is