Fyrsta pysjan fundin í Heimaey

Fyrsta pysjan fannst við gömlu Kertaverksmiðjuna Heimaey og var óvenju …
Fyrsta pysjan fannst við gömlu Kertaverksmiðjuna Heimaey og var óvenju létt í ár, eða 225 grömm. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsta pysjan fannst í Vestmannaeyjum í gær og er þar með lundapysjutímabilið formlega hafið. Pysjan fannst við Kertaverksmiðjuna Heimaey og vó 225 grömm, en það er fremur létt miðað við undanfarin ár. Gígja Óskarsdóttir hefur lengi séð um pysjueftirlitið svokallaða. Hún segir að pysjutímabilið hefjist nú í fyrra falli miðað við seinni ár þótt það hafi stundum byrjað talsvert fyrr. Raunar sást til fyrstu pysjunnar í bænum í lok júlí. „Við höfum oft byrjað fyrr. Fyrir tuttugu árum, þegar ég var lítil, fannst fyrsta pysjan oftast nokkrum dögum fyrir Þjóðhátíð,“segir hún.

Pysjueftirlitið hefur verið rafrænt síðastliðin tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins og verður áfram með því móti í ár.

Á síðasta ári var í fyrsta skipti reynt að koma í veg fyrir að pysjur lentu í olíumengun með því að draga úr lýsingu við höfnina, þar sem pysjurnar dragast að ljósunum. Var þá frekar kveikt á ljóskösturum ofar í bænum til að fá þær þangað í staðinn. „Það bar klárlega árangur, þar sem þær voru mun færri olíublautar í fyrra en undanfarin ár, en höfnin var reyndar mun hreinni en áður.“

Fengu ekki mikið æti í sumar

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segist ekki gera ráð fyrir góðu pysjuári í ár þar sem helmingur af eggjunum misfórst í sumar. Hann segir að lundinn hafi átt erfitt með að ná í æti í sumar vegna þess hversu illa áraði í sjónum.

„Makríllinn hefur komið inn seinna í ár en mig grunar að kísilmagnið í hafinu hafi minnkað aftur. Það er þó bara ágiskun þar sem við höfum ekki fengið mælingarnar í hendurnar.“

Erpur segir jafnframt að pysjan sem fannst í gær sé í samræmi við þá stærð sem búist var við, en pysjurnar verði léttari í ár vegna þess hversu litla fæðu þær hafa fengið. Hann segist reikna með því að það verði í það minnsta um 3.000 pysjur í bænum. „Það er gott að þetta sé komið af stað, þá fer boltinn bara að rúlla.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert