Leggja fram fimm tillögur vegna leikskólamála

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfstæðisflokkurinn leggur til vegna stöðu leikskólamála í Reykjavík að komið verði á fót bakvarðasveit til að tryggja nægjanlega mönnun leikskólanna og að leitað verði eftir undanþágu fyrir rekstrarleyfi nýrra leikskóla þar sem húsnæðið er fullbúið þó lóðin sé ekki full frágengin. Þá er lagt til að komið verði fyrir færanlegum kennslustofum á lóðum þeirra leikskóla þar sem aðstæður eru fyrir hendi í þeirri viðleitni að fjölga leikskólarýmum á meðan unnið er að varanlegum lausnum. 

Til að tryggja mönnun leikskólanna er lagt til að skóla- og frístundasvið leiti samstarfs við menntamálaráðuneytið og þá framhaldsskóla sem bjóða upp á leikskólaliðanám um að komið verði á starfsnámi fyrir þessa nemendur á leikskólum. Einnig er lagt til að boðið verði starfsmönnum frístundaheimila upp á heilsdags- og heilsársstörf, þannig að starfskraftar þeirra munu nýtast fyrri hluta dags við leikskólana en seinni hlutann við frístundaheimilin.

Tillögur þessar verða lagðar fram af Mörtu Guðjónsdóttur og Helga Áss Grétarsson, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar. Ráðið mun funda um leikskólavandann í dag en það var kallað saman fyrr að beiðni Mörtu. 

Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Helgi Áss Grétarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Bráðabirgðaúrræði sem er að bregðast

„Við leggjum okkar lóð á vogaskálarnar til að leysa þennan vanda,“ segir Marta, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Í samtali við mbl.is segir Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og fulltrúi í skóla- og frísstundaráði, að farið verði yfir stöðu mála með minnihlutanum í dag. Mun meirihlutinn ekki kynna neinar tillögur. 

Líkt og Morgunblaðið hefur greint frá þá hefur opnun fjögurra Ævintýraborga, sem er nafn borg­ar­inn­ar fyr­ir fær­an­lega leik­skóla í skúrum, seinkað. Marta telur dapurlegt að þessu bráðabirgðaúrræði sé að seinka.

„Það sem er dapurlegt í því sambandi er að Ævintýraborgirnar eru hugsaðar sem bráðabirgðaúrræði en nú er þetta úrræði að bregðast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert