Legið yfir tekjum landsmanna

Álagningarskrá einstaklinga var gefin út í tölvutæku formi í dag.
Álagningarskrá einstaklinga var gefin út í tölvutæku formi í dag. mbl.is/Hákon

Sú breyting hefur orðið að álagningarskrá einstaklinga er ekki lengur prentuð út heldur er hægt að skoða hana í tölvum. Í dag fjölmenntu fulltrúar nokkurra fjölmiðla að húsakynnum ríkisskattstjóra í Tollhúsinu, fyrsta daginn sem skráin er lögð fram í ár.

Þar liggur hún frammi, almenningi til sýnis, í 15 daga, til og með 31. ágúst.

Snorri Olsen ríkisskattstjóri segir í samtali við mbl.is að fyrirkomulagið sé ekki breytt að öðru leyti en því að tæknin sem notuð er er orðin öðruvísi.

Fulltrúar nokkurra fjölmiðla fjölmenntu.
Fulltrúar nokkurra fjölmiðla fjölmenntu. mbl.is/Hákon

Umhverfismál líka

„Það stafar að einhverju leyti af Covid-19 faraldrinum. Eitt árið var skráin ekki lögð fram út af því að menn vildu ekki hrúga fólki saman. Núna erum við með það kerfi að við erum hættir að prenta þetta í bókaformi, sem er auðvitað umhverfismál líka, að vera ekki að prenta út bækur sem má fletta í tvær vikur og svo á að henda þeim,“ segir Snorri.

„Núna erum við búin að setja upp tölvur, skjái og lyklaborð og þeir sem vilja fletta í þessu gera það þá með rafrænum hætti en ekki með því að fletta pappír.“

mbl.is/Hákon

Munar litlu fyrir almenning

„Það eru alveg sömu reglur og áður. Áður flettir þú í bók og skráðir niður en núna sérðu þetta á skjánum og skráir niður. Við veltum því fyrir okkur hvort þetta myndi þýða að menn yrðu fljótari eða lengur að þessu. Ef menn vita hvernig á að fletta eru menn jafnvel fljótari að gera þetta á skjánum,“ segir hann.

„Þetta snýr fyrst og fremst að fjölmiðlunum sem eru að fara í gegnum marga. Þegar einstaklingur kemur er hann kannski að leita að manninum í húsinu hliðina á sér eða frænda.

Það hefur verið straumur eins og alltaf af fjölmiðlafólki. Þau hafa viljað klára þetta á einum eða tveimur dögum og eftir það er ekki mikið sem fólk er að koma, einn og einn.“

mbl.is/Hákon

Komið til hvassra orðaskipta

Opinber birting á tekjum og skattgreiðslum einstaklinga hefur verið gagnrýnd af mörgum í gegnum árin. Telja þeir að laun og tekjur hljóti að vera einkamál hvers og eins í frjálsu samfélagi. Fráleitt sé að birta upplýsingar um tekjur fólks „á torgum“.

Þar hafa farið fremstir í flokki ungir sjálfstæðismenn. Þeir hafa gjarnan fjölmennt á skattstofur á fyrsta degi birtingarinnar og nælt sér í þau eintök sem liggja frammi. Á meðan hafa almennir borgarar ekki komist að. Hefur oft komið til hvassra orðaskipta á skattstofunum, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu þann 10. ágúst.

Snorri segist ekki vita hvort ungir sjálfstæðismenn hafi látið sjá sig í dag.

„Ég hef ekki heyrt af því en mér finnst nú líklegt að maður hefði heyrt það ef þeir hefðu komið.“

mbl.is