Svigrúm til að hækka laun um 52.000 kr. að mati Eflingar

Efling segir að tilefni til kjarabóta launafólks sé fyrir hendi …
Efling segir að tilefni til kjarabóta launafólks sé fyrir hendi og góð reynsla af Lífskjarasamningnum varði þá leið sem æskilegast sé að fara við núverandi aðstæður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við 7,5% verðbólgu og 2% framleiðniaukningu á árinu 2022 ættu laun að hækka um 52.250 kr. á mánuði, sem væri þá flöt krónutöluhækkun. Þetta kemur fram í Kjarafréttum Eflingar þar sem fjallað er um tilefni og leiðir til kjarabóta á þessu ári. 

Þar segir, að hagfræðingar Þjóðhagsráðs tali um að nú sé ekki svigrúm til launahækkana vegna þess að verðbólga sé of mikil. „Slíkar fullyrðingar eru villandi. Svigrúm til launahækkana ræðst öðru fremur af hagvexti og framleiðniaukningu. Hvoru tveggja er í góðu lagi á Íslandi þetta árið og afkoma þorra fyrirtækja mjög góð,“ segir í Kjarafréttum.

„Topparnir í samfélaginu hafa þegar tekið til sín verulegar launahækkanir, og hækkanir bónusa og kaupréttarheimilda. Arðgreiðslur úr fyrirtækjum eru í hámarki og fjármagnstekjur hátekjufólks hafa hækkað verulega. Samhliða því hafa skattfríðindi þeirra verið aukin,“ segir ennfremur. 

Góð reynsla af Lífskjarasamningunum

Þá er tekið fram, að það sé lágmark að launafólk njóti þeirrar framleiðniaukningar sem sé fyrir hendi með samsvarandi kaupmáttaraukningu. Ef ekki, þá sé tekjuskiptingunni breytt í þágu hátekjuhópanna og stóreignafólks. Tilefni til kjarabóta launafólks sé því vissulega fyrir hendi og góð reynsla af Lífskjarasamningnum varði þá leið sem æskilegast sé að fara við núverandi aðstæður.

Bent er að að umfjöllunin byggi á tilgreindum forsendum en kröfugerð Eflingar sé alfarið í höndum samninganefndar félagsins.

Kaupmáttaraukning verði meiri í lægstu launahópum en minni í þeim efri

Þegar fjallað er um launahækkanir segir eftirfarandi: „Góð reynsla var af flötum krónutöluhækkunum yfir línuna í Lífskjarasamningnum 2019, en þær skila lægri tekjuhópum meiri kaupmáttaraukningu en þeim sem hærri eru, einkum þeim sem eru yfir meðallaunum.“

Graf/Efling

Í sýnidæmi kemur fram að full kaupmáttaraukning með framleiðniaukningu upp á 2% komi „á 550.000 króna mánaðarlaun (með 9,5% launahækkun þar) og kaupmáttur meðallauna helst (þ.e. við 700.000 kr. mánaðarlaun, þar sem launahækkun er jöfn verðlagshækkunum, þ.e. 7,5%).

Þetta skili flatri krónutöluhækkun upp á 52.250 kr. á mánuði. Þetta sé svipuð útfærsla og hafi verið í Lífskjarasamningnum 2019, en á hærra verðbólgustigi. Með þessari aðferð verði kaupmáttaraukning meiri í lægstu launahópum en minni í þeim efri, sem hlífir atvinnulífinu að hluta við aukningu launakostnaðar. 

mbl.is