Var níu tíma á flugi yfir Atlantshaf

Óli Öder heitir flugmaðurinn.
Óli Öder heitir flugmaðurinn. mbl.is/Árni Sæberg

Sprautað var vatni úr slökkvibíl á fisflugvellinum á Hólmsheiði í Reykjavík í gær yfir fisflugvél, sem Óli Øder Magnússon flaug hingað til lands frá Berlín í Þýskalandi fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Ferðalag sjálfrar vélarinnar hófst aftur á móti á Ítalíu.

„Tveir félagar mínir flugu vélinni frá Ítalíu til Berlínar. Það tók rúmlega tvo daga. Ég tók síðan við vélinni í Berlín og flaug henni til Bremen. Í gær flaug ég henni frá Bremen og ætlaði að fara til Wick í Skotlandi en þar var lokað vegna þoku. Ég ætlaði þá að fara til Aberdeen en þar var einnig lokað vegna malbikunarviðgerða, þannig að ég var sendur tvo klukkutíma aftur á bak til Dundee. Þá var ég búinn að fljúga í sex klukkutíma þannig að ég stoppaði þar í einn og hálfan klukkutíma, setti eldsneyti á vélina og hreyfði á mér fæturna. Svo flaug ég frá Dundee til Egilsstaða og það tók níu klukkutíma.“

Fisflugvélin hefur að jafnaði flugþol í u.þ.b. fjóra og hálfa klukkustund en Óli kunni ráð við því. „Í farþegasætinu var ég með 110 lítra blöðru sem er keimlík pokunum í rauðvínsbeljunum og var full af bensíni. Vélin saug úr henni þar til allt í einu var enginn við hliðina á mér í farþegasætinu.“

Eyddi hann 9 klukkustundum yfir Atlantshafi.
Eyddi hann 9 klukkustundum yfir Atlantshafi. mbl.is/Árni Sæberg

Óboðinn gestur laumaði sér með

Hann segist þó ekki hafa flogið alla leiðina einsamall því óboðinn gestur laumaði sér inn í vélina.

„Það var geitungur, en hann kom sér um borð í Þýskalandi. Við urðum nokkuð góðir vinir. En svo fannst mér leiðinlegt að sjá hann dauðan í morgun. Ég veit ekki hver dánarorsökin er, kannski var þetta of langt flug,“ segir hann.

Að sögn Óla var ferðalagið það alerfiðasta sem hann hefur nokkurn tímann tekið sér fyrir hendur.

„En þetta var skemmtilegt. Þetta var auðvitað gert fyrir fisfélagið í sjálfboðavinnu en nú höfum við eignast okkar fyrstu vél.“

Vatni var sprautað yfir flugvélina.
Vatni var sprautað yfir flugvélina. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert