Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur sem hefur staðið fyrir mótmælum vegna leikskólavandans í Reykjavíkurborg, er ekki sátt við kynningu borgaryfirvalda á tillögum þeirra á vandanum. Telur hún borgina þurfa gera betur.
Skúli Helgason, formaður stýrihóps borgarinnar í uppbyggingu leikskóla, kynnti tillögur meirihlutans að leikskólavandanum í Ráðhúsinu í dag. Þá sat Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, fyrir svörum eftir kynninguna, en hann hafði boðið foreldrum sem mættu á mótmælin í dag á kynninguna.
Kristín tók til máls að kynningunni lokinni og sakaði borgaryfirvöld um kæruleysi og dónaskap. Sagði hún kynninguna ekki innihalda nein bein svör.
„Við getum ekki farið í vinnuna okkar vegna þess að þið eruð ekki að vinna vinnuna ykkur,“ sagði Kristín.
Jafnframt kom fram í máli Kristínar að hún hefði ekki gaman að því að mæta á kynningar sem þessar, enda væri hún ekki áhugakona um skipulag leikskóla.
Þá kallaði Kristín eftir því að borgin myndi greiða þeim foreldrum sem væru með börnin sín á biðlista heimgreiðslur.
Einar sagði meirihlutann vera að skoða þá tillögu, en leggja þyrfti mat á hana.