„Hér hafa allir hlaupið mjög hratt. Ég held að það sé góð samstaða í borgarráði milli minni- og meirihluta um að gera allt sem við getum til þess að auka framboð á plássum og koma börnum á leikskóla.“
Þetta sagði Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður borgarráðs, í samtali við mbl.is eftir kynningu borgarráðs á tillögum vegna leikskólavandans fyrr í dag. Alls voru sex tillögur kynntar.
Líkt og mbl.is hefur greint frá tók Kristín Tómasdóttir, fjögurra barna móðir og fjölskyldumeðferðarfræðingur sem hefur staðið fyrir mótmælum vegna leikskólavandans í Reykjavíkurborg, til máls að kynningunni lokinni.
Sagði hún Einar vera einan í meirihlutanum sem hafi sýnt mótmælendum þá virðingu að koma ræða við þá í morgun er þeir fjölmenntu í Ráðhúsinu. Sagði hún Einar jafnframt vera eina stjórnmálamanninn sem væri ekki orðinn að sófakartöflu í kerfinu.
Beindi hún einnig orðum sínum að Skúla Helgasyni, borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, sem kynnti tillögur meirihlutans í dag. Sagði Kristín vandann vera Samfylkingunni að kenna, því væri leiðinlegt að Einari væri að svara fyrir málið.
Nú ert þú hér að svara fyrir þetta mál. Árelía Eydís borgarfulltrúi Framsóknar er formaður skóla- og frístundaráðs. Er það súrt að þið þurfið að vera svara fyrir þetta mál í ljósi þess að þið voru ekki í síðasta meirihluta?
„Nei við buðum okkur fram til að hafa áhrif til góðs í borginni. Nú er þessi staða svona og þá gerum við það sem við vorum kosin til að gera. Vinna hratt og örugglega og finna lausnir og sýna afgerandi að það séu breytingar í borginni,“ segir Einar.
Slagorð Framsóknar fyrir síðustu var kosningar var einmitt: „Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?“