Fjögur sakfelld í líkamsárásarmáli: „Þú munt deyja“

Málið var flutt fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið var flutt fyrir Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt þrjá karlmenn fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, langvarandi frelsissviptingu, hótanir í félagi með öðrum og ólögmæta nauðung. Þá var einn þeirra einnig sakfelldur fyrir nytjastuld. Brotin voru framin árið 2018.

Körlunum þremur var gefið að sök að hafa veist að brotaþola ítrekað með ofbeldi þar sem þeir meðal annars kýldu hann í andlitið og felldu hann í jörðina þar sem þeir spörkuðu ítrekað í hann uns hann var reistur við og bundinn við stól. Sömuleiðis var þeim gefið að sök að hafa skorið föt hans utan af honum og troðið sokkum í munn hans og haldið áfram að kýla hann.

Jafnframt var þeim gefið að sök að hafa tekið af brotaþola farsíma og bankakort og tekið út af því 23.000 krónur úr hraðbanka, eftir að hafa neytt brotaþola til að gefa upp PIN-númer kortsins.

Sögðust skilja hvernig brotaþola hafi liðið

Talið er að brotaþoli hafi verið frelsissviptur í að minnsta kosti sex klukkustundir, frá kvöldi 1. maí til morguns 2. maí en þá var hann fluttur á bráðadeild Landspítala.

Brotaþoli hlaut rifbrot, hryggbrot, mar á höku, hruflsár á hné, mar á kvið, bólgu á kinnbein, eymsli í vinstri síðu, hálshrygg, mjóbaki og hné auk marbletta á kvið eftir árásina. Glímir hann við áfallastreituröskun enn þann dag í dag.

Hinir ákærðu sögðust allir fyrir dómi hafa átt frumkvæði að því að flytja brotaþola á spítala. Þá sögðust tveir þeirra hafa sjálfir lent í frelsissviptingu og hafi því skilið hvernig brotaþola hafi liðið. Með þeim ummælum taldi dómarinn ekki annað en að brotaþoli hafi verið frelsissviptur.

Einn var dæmdur til að sæta fangelsi í 24 mánuði, annar í 18 mánuði og sá þriðji í þrjú ár. Þar sem óhæfilegur dráttur hefur verið á málinu þótti rétt að refsingin yrði að mestu leyti skilorðsbundin, en fjögur ár eru síðan brotin voru framin. Þá var þeim gert að greiða brotaþola 2,5 milljónir.

„Þú munt deyja“

Ásamt körlunum þremur var kona sakfelld fyrir tvenn skilaboð sem hún sendi brotaþola 1. maí og 2. maí. Hótaði hún honum lífláti. Konan játaði að hafa sent skilaboðin en sagðist hafa verið á mjög slæmum stað þegar þau voru send.

„Allir muna vita hvað þú gerðir helvitið þitt, ég skal sjálf sjá til þess að þú rotnir í hreinasta helvíti mannógeðið þitt. Þú vilt ekki einu sinni ímyndað þér hvað sé í vændum hjá þér,“ voru fyrstu skilaboðin.

„Þú munt deyja,“ sagði í seinna skeytinu.

Sakaði brotaþola um nauðgun

Konan kvaðst vera móðir stúlku sem hafði sakað brotaþola um byrlun og nauðgun.

Stúlkan var komin á villigötur og sagði konan að allt hennar líf hefði snúist um að leita að henni. Því hafi hún sent brotaþola hótandi skilaboð til að koma því áleiðis að hún ætti aðstandendur sem hugsuðu um hana og hann gæti því ekki gert henni mein og komist upp með það.

Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa áður komið við sögu hjá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert