Gervitunglamyndir sýna að á síðustu vikum hefur vatnsstaða Hafrafellslóns í jaðri Langjökuls hækkað jafnt og þétt sökum úrkomu og bráðnunar jökulsins. Mögulegt er að það hlaupi úr lóninu á næstu dögum eða vikum.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Veðurstofu Íslands. Mikilvægt sé að vera á varðbergi gagnvart mögulegu hlaupi.
Segir einnig að fólki sem er á ferð við Svartá eða dvelur á bökkum Hvítár, til dæmis veiðimönnum, stafi mest hætta af hlaupinu og verði því að vera á varðbergi gagnvart hækkandi vatnsyfirborði. Þá er íbúum á svæðinu bent á að huga að mögulegum áhrifum hlaups á eignir og búfénað nærri bökkum Hvítár.
Skyndilegt flóð varð úr sama lóni árið 2020 en þá flæddi mikið vatn niður farveg Svartár, sem alla jafna er vatnslítil á þessum árstíma, og áfram niður í Hvítá. Tvöfaldaðist rennsli árinnar á örfáum klukkustundum þegar vöxtur hlaupsins var hvað hraðastur. Ef hleypur úr lóninu með svipuðum hætti og þá er ekki búist við teljandi áhrifum á mannvirki, að því er segir í færslunni.