„Lífsins lukka“ að hundurinn var í hvorugum bílnum

Þóra segist vilja sjá afmarkað svæði í Herjólfi þar sem …
Þóra segist vilja sjá afmarkað svæði í Herjólfi þar sem farþegar gætu setið með gæludýr sín. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Reglan er í raun sú að dýrið á að vera í bílnum á bíladekkinu og eigandi má vera hjá því, en það hefur til dæmis reynst erfitt fyrir fólk sem er ekki á bíl. Fólk á í erfiðleikum með að koma dýrunum sínum yfir,“ segir Þóra Gísladóttir, formaður Félags dýravina í Vestmannaeyjum.

Félagið hefur efnt til undirskriftasöfnunar í kjölfar óhappsins sem átti sér stað í Herjólfi á sunnudag, þegar bílalyfta skipsins fór niður og kramdi tvo bíla. Þar er þess krafist að aðstaða gæludýra um borð í skipinu verði bætt. Hvorki menn né dýr voru í bílunum er lyftan fór niður.

„Það var hundur á bíladekkinu þegar slysið varð og sá hundur kom út mjög skelkaður. Það var lífsins lukka að hann var ekki í bílunum sem krömdust,“ segir Þóra í samtali við mbl.is.

„Við vildum sjá hvar fólk stæði og eins og er eru komnar yfir 2.000 undirskriftir og við erum 4.500 manna bæjarfélag, en allir á landinu geta þó skrifað undir.“

Neitað um aðgang í Herjólf

„Eftir þetta slys hélt maður nú kannski að þeir færu aðeins að sjá að sér, en í fyrradag kom upp sú staða að maður var að koma til Eyja með lítinn hvolp sem hann var að fá sér.

Hvolpurinn átti ekki búr og maðurinn ætlaði að setja hann undir úlpuna sína en honum var neitað um aðgang í Herjólf. Hann færi ekki með Herjólfi nema einhver myndi setja hvolpinn inn í bíl hjá sér, og fólk er kannski ekki alltaf tilbúið til að fá ókunnuga hunda inn í bíl.“

Þóra segist vilja sjá afmarkað svæði í Herjólfi þar sem farþegar gætu setið með gæludýr sín.

„Ég myndi vilja vera í viðræðum við þá og finna öruggan stað fyrir dýrin. Við höfum til dæmis óskað eftir því að hafa einn stól um borð, ekkert endilega í matsalnum, þar sem mætti sitja með dýrið og að sjálfsögðu í stuttum taumi eða í búri.“

Dýrin farið illa út úr sjóferðunum

„Þau hafa mörg verið ofboðslega skelkuð og farið illa út úr þessum sjóferðum, þau verða sjóveik eins og við.“

Hún segir að upphaflega hafi verið gert ráð fyrir sérstöku herbergi fyrir dýrin þegar skipið var teiknað, en því hafi verið breytt í lager fyrir matsalinn þegar skipið var smíðað.

Þóra segist vonast til þess að sjá breytingar á fyrirkomulaginu og bendir á að þau hjá félaginu eigi fund með bæjarstjóra Vestmannaeyja á mánudaginn.

mbl.is