Ölmusa frá borginni muni ekki duga

Ingi ætlar að mæta aftur klukkan hálf eitt til að …
Ingi ætlar að mæta aftur klukkan hálf eitt til að heyra tillögur borgarráðs. mbl.is/Inga Þóra

„Ég vonast í fyrsta lagi eftir öflugum skammtímalausnum á þessu máli og síðan að meirihlutinn fari að vinna í framtíðarlausnum.“ 

Þetta segir Ingi Bekk, foreldri 18 mánaða barns sem hefur ekki enn fengið leikskólapláss í Reykjavík, í samtali við mbl.is. Ingi er einn þeirra sem mætti á mótmælin vegna leikskólavandans í Ráðhúsinu í morgun. 

Fundur borgarráðs stendur nú yfir og verður leikskólavandinn og tillögur að lausnum við honum ræddar. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, sagði við mótmælendur í morgun að tillögurnar yrðu kynntar eftir fundinn. Búist er við að fundinum ljúki klukkan hálf eitt. 

Þurft að hætta vinna

Ingi þurfti sjálfur að hætta vinna vegna leikskólavandans. Skyldi ekki vera hægt að bjóða börnunum leikskólapláss í haust vonast Ingi til að borgarráð komi með einhverja lausn sem hjálpi foreldrum fjárhagslega. 

„Við viljum í fyrsta lagi fá aðstöðu fyrir börnin okkar. Ef að það er ekki hægt að leysa úr því þá væri hægt að ræða að fá einhverskonar bætur, en það má ekki vera einhver ölmusa. Til dæmis í mínu tilviki þá er ég algjörlega dottinn úr starfi út af þessu og á ekkert fæðingarorlof eftir. Það eru margar aðrar fjölskyldur í sömu stöðu og eru jafnvel verr stödd en við.“

mbl.is