Skoða hvort kókaínfundur tengist öðrum málum

Grímur segir það krefjast mikillar skipulagningar að standa að innflutningi …
Grímur segir það krefjast mikillar skipulagningar að standa að innflutningi á svo miklu magni fíkniefna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumkvæðisrannsókn lögreglunnar á skipulagðri brotastarfsemi sem leiddi til þess að tæplega 100 kíló af kókaíni fundust í vörusendingu á leið til landsins fyrr í þessum mánuði, snerist aðallega um að safna upplýsingum og greina þær. Ekki var fylgst með ákveðnum einstaklingum sem grunaðir voru um refsiverða háttsemi.

Þetta segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Frumkvæðisrannsóknir snúist yfirleitt um að safna upplýsingum. „Þó það segi ekki mjög mikið, þá er það raunverulega það sem gerist. Það er verið að safna upplýsingum. Þetta var samvinnuverkefni hér innanlands og við erlent lögreglulið og stofnanir eins og Europol sem við erum í samstarfi við. Svo greinum við upplýsingar sem þaðan koma. Greining upplýsinga er það sem gerist við svona rannsóknir,“ útskýrir Grímur.

Ekki er um forvirka rannsókn að ræða, enda hefur lögreglan á Íslandi ekki heimildir til þess. „Ef það er verið að fylgjast með einhverjum einstaklingum þá er það í opinberri rannsókn, í sakamálarannsókn. Þá getum við fylgst með einstaklingum ef þeir eru grunaðir um refsiverða háttsemi.

Skilgreining á þessum forvirku rannsóknarheimildum er sú að það sé ekki grunur um refsiverða háttsemi en samt hafi lögregla heimild til að fylgjast með einstaklingum. En það var ekki í þessu tilfelli. Við erum ekki þar.“

Grunaðir um verulega aðild að málinu

Fjórir voru handteknir í tengslum við innflutning efnanna, en um er að ræða mesta magn sem haldlagt hefur verið í einni sendingu hér á landi. Þrír hinna handteknu voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 14. september næstkomandi og einn hefur þegar hafið afplánun vegna annarra mála.

Teljið þið að þið séu með skipuleggjendur eða höfuðpaura þessa máls í haldi núna?

„Við handtókum fjóra menn sem eru grunaðir um að eiga verulega aðild að þessum innflutningi. Hvort það eru einhverjir fleiri sem koma til álita, það getur komið í ljós við frekari rannsókn málsins.“

Allir sem handteknir voru eru Íslendingar, en Grímur segir þó ekki hægt að útiloka að einhverjir erlendir aðilar tengist málinu. Það verði að koma í ljós.

Hann vill ekki upplýsa hvort um er að ræða góðkunningja lögreglunnar eða ekki. Það skipti ekki öllu máli.

Áhrifa mun ekki gæta strax

Spurður hvort innflutningur á svo miklu magni af fíkniefnum krefjist ekki mikillar skipulagningar, segir Grímur svo vera. „Ég myndi taka undir að það þurfi nokkuð mikil skipulagning að eiga sér stað með svona innflutning hjá þeim sem að baki standa.“

Eitt af því sem er til rannsóknar er hvort innflutningurinn sé hluti af enn umfangsmeiri brotastarfsemi. Hvort málið tengist öðrum upplýsingum sem lögreglan hefur undir höndum eða öðrum málum sem eru til rannsóknar.

Það er mat Gríms að ekki verði hægt að finna áhrifum haldlagningar þessara efna á fíkniefnamarkaðnum hér á landi strax, ef einhverra áhrifa mun gæta yfir höfuð.

„Ef þetta hefur einhver áhrif þá mun það sjást eftir einhvern tíma. Hvort framboð dregst saman og muni þá hafa þá áhrif á að verð hækki. Þessi markaður er ekki mjög vanþroskaður. Þeir sem stýra markaðnum þeir hugsa alveg um það hvernig þeir setja efni inn á markaðinn og velta fyrir sér framboði og verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert