Ásmundur Einar tók fyrstu skóflustungu að nýjum matskála í Vatnaskógi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tekur fyrstu skóflustunguna að …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tekur fyrstu skóflustunguna að nýjum matskála í Vatnaskógi. Ljósmynd/HAG

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók í gær fyrstu skóflustunguna að nýjum matskála sem reistur verður í Vatnaskógi. Undirbúningur að byggingu nýja skálans hefur staðið yfir um árabil og munu framkvæmdir hefjast í haust.

Sumarbúðastarf KFUM stendur enn yfir og voru um 100 drengir í flokk viðstaddir fyrstu skóflustunguna ásamt fjölda gesta. Frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flutti blessunarorð við tilefnið.

Guðmundur Gunnlaugsson, arkitekt hjá Archus arkitektum, teiknaði nýja matskálann sem reistur verður til móts við þann sem nú stendur og nær Eyrarvatni, sem liggur að Vatnaskógi.

„Nýr matskáli mun gera aðstöðuna hér mun betri,“ segir Ársæll Aðalbergsson, framkvæmdastjóri Skógarmanna, í samtali við mbl.is en núverandi matskáli var vígður árið 1968 og því kominn til ára sinna en hann var byggður sem sumarskáli.

„Það er starfsemi hér í Vatnaskógi allan ársins hring, sumarbúðastarf á sumrin og fjölbreytt starf á veturna, t.d. fermingarnámskeið, æskulýðsmót, fjölskylduhelgar, skólahópar og fleira. Við tókum nýjan svefnskála í notkun fyrir nokkrum árum sem gjörbylti aðstöðunni og gerði okkur auðveldara um vik að halda uppi starfsemi allt árið. Það er því eðlilegt næsta skref að reisa nýjan matskála til að gera starfið hér betra til lengri tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert