100 þúsund til Íslands, 2,3 milljarðar til Danmerkur

Lukkan lék ekki við landsmenn þegar dregið var út í Eurojackpot í kvöld, eða að minnsta kosti þá sem fest höfðu kaup á miða í von um fyrsta vinning, sem hljóðaði upp á rúmlega 2,3 milljarða íslenskra króna.

Svo fór að vinningurinn kom á miða sem seldur hafði verið í Danmörku.

57 milljónir fyrir fjóra Þjóðverja

Fjórir Þjóðverjar skipta auk þess með sér 2. vinningi, og fær hver um sig rúmar 57 milljónir króna fyrir vikið, þó eflaust taki þeir það heldur út í evrum.

Sex til viðbótar skiptu með sér 3. vinningi, andvirði 21,5 milljóna króna fyrir hvern og einn, en þeir heppnu voru sem fyrr allir á meginlandi Evrópu.

Einn Íslendingur hafði samt sem áður fjórar réttar tölur í Jókernum svonefnda, og fær fyrir það hundrað þúsund krónur. Sá miði var seldur í áskrift.

mbl.is