Fíkniefnamál ólík öðrum brotamálum

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands,
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, Árni Sæberg

„Þetta mál er auðvitað bara nýr kafli í fíkniefnasögu Íslands,“ segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, í samtali við Morgunblaðið, spurður út í stærsta kókaínmál er upp hefur komið á landinu. Nýverið gerði lögreglan eitt hundrað kílógrömm af efninu upptæk.

„Fíkniefnamál eru ólík öðrum brotamálum. Enginn sem kemur að þessu hefur beinlínis hag af því að tilkynna lögreglunni um það. Þetta er ekki eins og þegar hjólum er stolið eða einhver verður fyrir ofbeldi, þetta eru glæpir sem kalla mætti án fórnarlambs, sölumaðurinn ætlar sér að selja og neytandinn vill kaupa,“ heldur prófessorinn áfram.

Hann segir það vissulega algenga skoðun að neytendurnir séu þolendurnir en málið sé þó ekki svo einfalt þegar fíkniefni eru annars vegar.

„Fólk ætlar sér að nota þessi efni, alveg eins og fólk fer í ríkið og kaupir sér áfengi. Þetta mál sprengir alla skala, þolir íslenski markaðurinn hundrað kíló af kókaíni? Almennt er talað um að nægt framboð lækki verðið. Ég er ekkert viss um að þeir sem standa á bak við þetta vilji það,“ segir Helgi og veltir upp þeirri hugmynd hvort efnin hafi verið á leið á annan áfangastað.

Smygl frá Íslandi fáheyrt

„Engum dettur í hug að verið sé að smygla einhverju frá Íslandi. Var kannski verið að nota Ísland sem umskipunarhöfn, svo þessi efni ættu greiðari leið inn á evrópskan markað vegna þess að enginn reiknar með að smyglvarningur sé að koma frá Íslandi, gæti það verið?“ spyr Helgi Gunnlaugsson prófessor.

„Þetta hefur kannski áhrif í einhverjar vikur en það er alveg nóg sem kemur inn. Jú, jú, nú voru hundrað kíló tekin en ég er ekki viss um að þetta valdi neinum skorti,“ sagði íslenskur kókaínsali í samtali við mbl.is í gær.

Efnum mokað inn

„Það er alltaf nóg til af dópi. Tollurinn nær kannski fimm til tíu prósentum, er ekki alltaf talað um það? Ég held að það sé nokkuð nærri lagi. Það er verið að moka þessum efnum inn. Fólk kemur með þetta í flugi, það er verið að senda þetta í pósti og gámaskipin eru auðvitað góð flutningsleið, erfitt að leita í þeim, og ekki gleyma Norrænu, þar kemur hellingur inn,“ sagði sölumaðurinn.

Helgi Gunnlaugsson heldur áfram: „Manni finnst ekki líklegt að á bak við þetta standi menn sem ætli sér að mjaka þessum efnum út á markaðinn yfir nokkurra ára tímabil. Það passar bara ekki við þennan bransa. Því finnst mér líklegt að þessum efnum hafi verið ætlað að stoppa tímabundið á Íslandi til að draga úr grunsemdum við flutning þeirra áfram, en það veit maður auðvitað aldrei. Í raun veit enginn með vissu hve stór fíkniefnamarkaðurinn er á Íslandi,“ segir Helgi Gunnlaugsson að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert