Handtekinn í Svíþjóð eftir áflog

Hannes Steindórsson.
Hannes Steindórsson. Ljósmynd/Aðsend

Hannes Steindórsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi, segist í facebookfærslu sinni hafa verið handtekinn á veitingastað í Svíþjóð eftir áflog við tvo menn.

Hannes, sem er bindindismaður og alkóhólisti, kveðst hafa gert mikil mistök þegar hann drakk sterkt áfengi á veitingastaðnum með mönnunum tveimur.

„Á einhvern óskiljanlegan hátt þigg ég boð um að drekka með þeim, það endar ekki betur en svo að ég lendi í áflogum við þessa menn og við erum beðnir um að yfirgefa veitingastaðinn, stuttu seinna kemur lögreglan og fylgir okkur út af staðnum, Fjörtíu og fjögurra ára þriggja barna faðir gisti fangageymslu þá nótt,“ skrifar Hannes.

Hann segir skömmina hafa verið ólýsanlega daginn eftir. Hann hafi flogið til Íslands og tekið ábyrgð á gjörðum sínum með viðeigandi hætti.

„Eftir það fór ég beint á þann stað þar sem ég á heima, 12 spora samtök sem gera mig að betri manni, betri föður, betri syni. Ég ákvað að segja frá þessu sjálfur þar sem ég sætti mig ekki við hótanir fjölmiðla. Ég er kominn á réttan stað aftur og ætla að vera þar,“ bætir Hannes við en fyrr í færslunni hafði hann greint frá því að fjölmiðlar hafi hótað af birta um hann „lygasögur og kjaftasögur“ um atvikið.

mbl.is