Herþotur flugu yfir veiðimenn: „Svolítið óþægilegt“

„Þetta var svolítið sérkennilegt og svona eitthvað sem situr eftir …
„Þetta var svolítið sérkennilegt og svona eitthvað sem situr eftir í minningunni,“ segir Gunnar um herþoturnar. Ljósmynd/Gunnar Aðalsteinsson

Gunnar Aðalsteinsson leiðsögumaður varð hissa þegar tvær herþotur flugu yfir Vatnsdal um klukkan ellefu í morgun, er hann var að leiðbeina hópi kvenna í veiði.

„Við vorum tveir leiðsögumenn á mjög svipuðum stað í Vatnsdal og við vorum þarna bara í rólegheitum í frábæru veðri þegar við heyrðum allt í einu drunur og hávaða sem varð bara hærri og hærri.

Þá sáum við tvær herþotur sem flugu yfir okkur og var rosalegur hávaði,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

„Þögnin var rofin og þetta var svolítið óþægilegt, af því að maður er þarna í algjörri þögn.“

Fannst þetta rosalega óþægilegt

„Ég fann að konunni sem var þarna með mér, henni leið ekkert vel, henni fannst þetta rosalega óþægilegt, og skiljanlega, maður var þarna í friði og ró í þessum fallega dal,“ segir Gunnar.

Bætir hann við að allir hefðu orðið hissa og fundist þetta svolítið skrýtið. Veiðistaðurinn er rétt fyrir neðan Hof í Vatnsdal.

„Þetta var svolítið sérkennilegt og svona eitthvað sem situr eftir í minningunni.“

mbl.is