Í vinnslu að fjölga mannskap í Meradölum

Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir í vinnslu að auka …
Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, segir í vinnslu að auka mannskap í Meradölum til að létta álaginu af björgunarsveitinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það gengur mjög vel í bænum,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík, um þá miklu uppsveiflu sem er í ferðaþjónustu í bænum um þessar mundir vegna gossins í Meradölum.

Fannar segir mjög líflegt í bænum og nóg um að vera. Þá nefnir hann að mesti fjöldi fólks á svæðinu á einum degi frá því að gosið hófst í byrjun ágúst var um átta þúsund manns.

„Það fer auðvitað öll bílaumferð í gegnum Grindavíkurbæ, langflestir aka Grindavíkurveginn, sumir koma Suðurstrandarveginn og mjög margir stoppa, bæði í verslunum hjá okkur og á veitingastöðum. Tjaldstæðin eru öll yfirbókuð og almenn ánægja ríkir með stöðuna meðal bæjarbúa.

Vel undirbúin

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, sagði frá því í samtali við mbl.is í gær að gosið í Meradölum væri aðeins hluti af langri atburðarás og að Ísland væri að ganga inn í gostímabil þar sem miklu meira er undir en gosið núna.

Varðandi viðbúnaðinn á svæðinu segir Fannar að gengið hefði verið frá öllum viðbragðs- og rýmingaráætlunum þegar að gos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadölum í mars 2021.

„Áætlanir hafa verið yfirfarnar og endurnýjaðar eftir atvikum og það var strax gripið til þess þegar fór að skjálfa og gjósa hjá okkur núna. Við erum því vel undirbúin, en þetta eru miklu minni verkefni vegna þess að það voru komnir slóðar, bílastæði og gönguleiðir markaðar. Þetta er nú á svipuðum stað og í fyrra,“ segir Fannar.

„Þessi hópur sem stóð að framkvæmdum og viðbragðsáætlunum í fyrra er sami hópurinn og kom saman núna og allar tengingar og verkefni voru þekkt þannig séð, svo þetta hefur gengið mjög vel.“

Í vinnslu að fjölga mannskap

Fannar segir í vinnslu að fjölga mannskap til að létta á álaginu á björgunarsveitir á gosstöðvunum. Nýverið tóku tveir landverðir til starfa á svæðinu en þeir verða þrír um helgar.

„Landverðir eru á ferðinni við upphaf gönguleiðar og inn eftir gönguleiðinni upp að gosi. Þetta er auðvitað fín viðbót en þeir geta að sjálfsögðu ekki sinnt nema hluta þeirra verkefna sem eru þarna. Björgunarsveitirnar eru burðarásinn í þessu, ásamt lögreglunni.

Það er í vinnslu núna að fjölga mannskap til að létta á björgunarsveitunum, hvort sem það verða þá fleiri landverðir eða eitthvað annað, en þetta er í meðferð hjá ríkisvaldinu,“ segir Fannar að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert