Kristrún býður sig fram til formanns

Kristrún á blaðamannafundinum í Iðnó.
Kristrún á blaðamannafundinum í Iðnó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristrún Frostadóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Þessu greindi hún frá á fundi í Iðnó við dynjandi lófaklapp.

Logi Ein­ars­son, formaður Samfylkingarinnar, sagðist í júní síðastliðnum ekki ætla að gefa kost á sér til áfram­hald­andi for­mennsku í flokknum á lands­fundi í haust.

Síðan þá höfðu nöfn Kristrúnar og Dags B. Eggertssonar borgarstjóra helst verið nefnd í tengslum við framboðið. Fram kom í gærmorgun að Dagur ætlaði ekki ætla að bjóða sig fram sem formaður Samfylkingarinnar og um svipað leyti boðaði Kristrún til fundarins í dag.

Hægt að stjórna landinu betur

„Ég gæti ekki ímyndað mér meiri heiður en að leiða flokk jafnaðarmanna ef ég er til þess kjörin og geri mér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem því fylgir. Ég er ánægð með þessa ákvörðun og ánægð með að vera búinn að deila henni með ykkur í dag,“ sagði hún og bætti við að hún vildi segja stuðningsmönnum sínum hvað hún er að hugsa og hvers vegna hún hafi tekið þessa ákvörðun," sagði Kristrún á fundinum. 

„Ég væri nefnilega ekki að þessu nema vegna þess að ég veit að það er hægt að stjórna landinu betur en nú er gert. Það er hægt, fólkið í landinu veit það og ég treysti mér til þess, annars væri ég ekki að þessu,“ sagði hún.

„Við verðum að fara að byggja meira á samstöðu og samkennd í pólitíkinni, fyrir samfélagið. Við þurfum á samstöðupólitík að halda, því ofuráherslan undanfarin ár hefur verið á einstaklingshyggju og hún gerir okkur ekki gott. Við verðum að hugsa hlutina á breiðari grunni.“

Ræðu Kristrúnar var vel tekið í Iðnó.
Ræðu Kristrúnar var vel tekið í Iðnó. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aukin tenging við venjulegt fólk

Kristrún hélt áfram: „Samfylkingin þarf að ná virkari tengingu við venjulegt fólk á Ísland, hinn almenna launamann,“ sagði hún og bætti við: „Við sem flokkur munum aldrei geta lagt fram svör við áskorunum venjulegs fólks án þess styrkja tengslin, fjölga samtölunum.“

Kristrún kvaðst fullviss um að Samfylkingin geti unnið kosningnar á nýjan leik og orðið ráðandi afl í ríkisstjórn með áherslum sem taki mið af daglegu lífi fólksins í landinu.

Draga skuli línu í sandinn

„Við verðum í sameiningu að draga línu í sandinn um hvað við munum ekki líða og leggja af mörkum til sameiginlegra sjóða til að tryggja fólki gott líf og þora að beita ríkinu í þágu fólksins í landinu,“ hélt hún áfram.

„Við þurfum að sameinast um fullfjármagnað heilbrigðiskerfi, sameinast um að ríkið taki ábyrgð á húsnæðismarkaðnum, sameinast um að fólk á lágum tekjum og ungt fólk, barnafólk, beri ekki hitann og þungann af verðbólgunni.“

Nefndi hún að styrkja þurfi almannaþjónustu og grunnviði samfélagsins um allt land og að efnahagslegur stöðuleiki byggi á velferð fólks.

mbl.is