Upplýsa ekki hvaða Íslendingar séu á bannlista

Utanríkisráðuneyti Rússlands segir engin ákvæði í rússneskum lögum gera þeim …
Utanríkisráðuneyti Rússlands segir engin ákvæði í rússneskum lögum gera þeim skylt að upplýsa hverjir séu á þarlendum bannlista. Ljósmynd/Utanríkisráðuneyti Rússlands

Rússnesk yfirvöld munu ekki upplýsa hverjir séu á meintum bannlista sínum, þar sem ekki er kveðið á um að birta samsetningu hans í þarlendri löggjöf. Þetta kemur fram í svari upplýsinga- og fjölmiðladeildar rússneska utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn blaðamanns.

Í april tilkynntu rússnesk yfirvöld að níu íslenskir, 16 norskir, þrír grænlenskir og þrír færeyskir ríkisborgarar hefðu verið settir á sérstakan bannlista rússneskra yfirvalda, en í því felst að þeim er óheimilt að sækja Rússland heim. Hvergi hefur hins vegar verið hægt að finna umræddan lista á opinberum síðum rússneskra yfirvalda og hafa íslensk stjórnvöld ekki verið upplýst um hverjir séu á umræddum lista.

Það hafa því vaknað spurningar um tilvist listans og hvort rússnesk yfirvöld hafi í raun viljað forðast birtingu hans í þeim tilgangi að geta breytt því hverjir séu á honum eftir því sem henti hverju sinni.

Ekki tilkynnt þeim sem eru á lista

Rússneska utanríkisráðuneytið fullyrðir í svari sínu, sem barst á rússnesku, að níu íslenskir ríkisborgarar hafi verið settir á bannlista í samræmi við gildandi ákvæði sambandslaga nr. 114-FZ frá 15. ágúst 1996 um ferðir til og frá Rússlandi.

Þá vekur ráðuneytið athygli á að ekki er kveðið á um að birta samsetningu bannlistans í rússneskri löggjöf og má því gera ráð fyrir að ekki verði veittar upplýsingar um hverjir séu á bannlistanum, jafnvel að þeir sem kunna að vera á listanum séu ekki upplýstir um það.

„Þessar aðgerðir eru svar við því að Ísland gerðist aðili að and-rússneskum refsiaðgerðum Evrópusambandsins sem fela meðal annars í sér takmarkanir á rússneska embættismenn. Með tilskipun ríkisstjórnar rússneska sambandsríkisins nr. 430-r, frá 5. mars 2022, er Ísland skráð á lista yfir ríki sem fremur fjandsamlegar aðgerðir gegn Rússlandi, rússneskum lögaðilum og einstaklingum,“ segir að lokum.

Því er ekki svarað hvort nöfnum fleiri Íslendinga kunni að verða bætt á umræddan lista.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert