„Vissi að ég vildi gera eitthvað merkilegt“

Mack Rutherford hefur verið á fimm mánaða ferðalagi um heiminn …
Mack Rutherford hefur verið á fimm mánaða ferðalagi um heiminn og segist hafa þurft að takast á við þó nokkrar áskoranir. mbl.is/Árni Sæberg

Hinn sautján ára gamli Mack Rutherford er aðeins fimm dögum frá því að verða yngsti sólóflugmaðurinn til þess að fljúga einn umhverfis hnöttinn, og setja þar með nýtt heimsmet.

„Þetta hefur verið stórkostlegt ferðalag og ég get ekki beðið eftir að halda áfram,“ segir Mack í samtali við mbl.is á Reykjavíkurflugvelli, eftir fimm tíma flug frá Grænlandi til Íslands.

Áður en Mack lenti þar rétt fyrir klukkan fjögur í dag flaug hann nokkra hringi yfir eldgosið í Meradölum.

Hann segir það hafa mjög gengið vel að fljúga til landsins, en að aðstæður hefðu samt sem áður verið krefjandi þar sem lágskýjað var yfir Atlantshafinu.

Mack lenti á Reykjavíkurflugvelli í dag.
Mack lenti á Reykjavíkurflugvelli í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lengsta flugið um tíu klukkustundir

Mack hefur verið á fimm mánaða ferðalagi um heiminn og segist hafa þurft að takast á við þó nokkrar áskoranir.

„Yfir Sahara-eyðimörkinni var mjög lélegt skyggni, á Indlandi voru miklir stormar og síðan var mjög erfitt að fljúga yfir Kyrrahafinu,“ segir hann.

„Lengsta flugið hingað til var frá Japan til Bandaríkjanna. Það tók um það bil tíu klukkustundir. Það var frekar stressandi að undirbúa sig fyrir það, við þurftum að setja upp aukaeldsneytistank fyrir þá ferð. Ferðin sjálf var einnig frekar erfið, en mér tókst að lokum að lenda í Bandaríkjunum.“

Hann segir að tilfinningin að vera nálægt því að setja heimsmet sé mjög góð.

„Þetta er búið að taka svo langan tíma og það er ótrúlegt að geta raunverulega náð þessu.“

Mack Rutherford er aðeins fimm dögum frá því að setja …
Mack Rutherford er aðeins fimm dögum frá því að setja nýtt heimsmet. mbl.is/Árni Sæberg

Fékk innblástur frá systur sinni

Mack hefur dreymt um að verða flugmaður síðan hann var aðeins þriggja ára gamall og fékk flugmannsréttindi í september árið 2020, þá 15 ára, sem gerði hann að yngsta flugmanni í heimi á þeim tíma.

„Eftir að ég fékk flugmannsréttindi vissi ég að ég vildi gera eitthvað merkilegt í tengslum við flug, en ég var ekki viss um hvað ég vildi nákvæmlega gera.

En þegar systir mín flaug umhverfis heiminn hugsaði ég með mér að það væri frábær hugmynd að reyna að gera slíkt hið sama. Ég var virkilega innblásinn af systur minni.“

Systir hans, Zara Rutherford sem er 19 ára, varð yngsta konan til að fljúga ein umhverfis hnöttinn í fyrra.

mbl.is