Hafa safnað 3 milljónum í minningu 11 ára Bjarteyjar

Hópurinn var allur klæddur appelsínugulum bolum með mynd af Bjarteyju …
Hópurinn var allur klæddur appelsínugulum bolum með mynd af Bjarteyju aftan á. Ljósmynd/Aðsend

Hlaupahópurinn Bjartey cool hefur safnað rúmlega þremur milljónum króna sem renna munu til vökudeildar Barnaspítala Hringsins.

Hópurinn telur yfir 80 hlaupara, en þeir hlupu allir í minningu Bjarteyjar Kjærnested Jónsdóttur, sem lést 11 ára gömul, síðastliðna páska eftir 10 mánaða baráttu við krabbamein. 

Hér má sjá hluta hópsins saman kominn.
Hér má sjá hluta hópsins saman kominn. Ljósmynd/Aðsend

Hjartahlý, skapandi og skemmtileg

Bjartey greindist með illvígt heilaæxli í júni 2021 og lést úr því í apríl 2022.

„Á meðan meðferð stóð naut Bjartey og fjölskylda hennar einstakrar þjónustu Barnaspítala Hringsins og starfsfólks hans.

Bjartey var einstaklega góð manneskja, hjartahlý, skapandi og skemmtileg. Hún barðist hetjulega og af miklu æðruleysi við sjúkdóm sinn og var sönn hetja og fyrirmynd.  

Markmið okkar er að heiðra minningu Bjarteyjar sem var mikil íþrótta- og hlaupastelpa og um leið láta Barnaspítala Hringsins njóta góðs af,“ segir á vefsíðu Reykjavíkurmaraþonsins. Þess má geta að enn er hægt að leggja söfnuninni lið út mánudaginn 22. ágúst.

Bjartey lést í apríl eftir 10 mánaða baráttu við krabbamein.
Bjartey lést í apríl eftir 10 mánaða baráttu við krabbamein.

„Væri frábært að ná upp í milljón“ 

Signý Valdimarsdóttir hljóp í minningu frænku sinnar, Bjarteyjar. „Þetta fór bara af stað sem lítil hugmynd og við vorum ekki með neitt markmið í sjálfur sér. Svo bættist bara í hópinn í sífellu,“ segir hún í samtali við mbl.is. 

„Þegar við vorum búin að safna 500 þúsund þá hugsuðum við að það væri frábært að ná milljón. Þær voru svo orðnar tvær í gær og rétt fyrir miðnætti höfðu safnast þrjár milljónir. Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum.“

Meðal hlaupara voru bræður, frændfólk og vinir Bjarteyjar. Öll voru þau klædd appelsínugulum bolum með mynd af Bjarteyju á bakinu.

Að loknu hlaupi tóku foreldrar Bjarteyjar á móti hópnum á heimili sínu, en Ingunn Jónsdóttir, móðir hennar, hljóp sjálf 10 kílómetra. 

„Þetta er auðvitað ofboðslega sárt, en það gefur samt svo mikið að finna þessa samstöðu. Við höfum fengið alveg ótrúlegan stuðning,“ segir Signý. 

Björk móðursystir Bjarteyjar og Ingunn, móðir Bjarteyjar.
Björk móðursystir Bjarteyjar og Ingunn, móðir Bjarteyjar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert