Ekki talinn hafa svipt sig lífi

Frá Blönduósi í dag. Árásin átti sér stað í heimahúsi.
Frá Blönduósi í dag. Árásin átti sér stað í heimahúsi. mbl.is/Hákon

Lögreglan rannsakar nú meðal annars hvernig andlát meints árásarmanns á Blönduósi bar að, en hann er ekki talinn hafa svipt sig lífi.

Þetta staðfestir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.

Tveir eru í haldi lögreglu vegna málsins, en samkvæmt heimildum mbl.is hafa þeir fjölskyldutengsl við þá sem fyrir árásinni urðu.

Fólkið er ekki grunað um að hafa aðstoðað árásarmanninn með neinum hætti. „Rannsókn málsins lýtur að því að rannsaka hvernig andlát gerandans vildi til,“ segir Birgir.

Árásarmaðurinn varð einum að bana og særði annan, en hann fannst svo sjálfur látinn á vettvangi.

Samkvæmt heimildum mbl.is var hann fyrrverandi starfsmaður þess sem hann réðst á. Árásin átti sér stað í heimahúsi á Blönduósi um klukkan hálf sex í morgun.

Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra. mbl.is/Hákon Pálsson

Handtekinn fyrir þremur vikum

Birgir staðfestir að lögregla hafi haft afskipti af árásarmanninum fyrr í sumar vegna hótana með skotvopni.

„Fyrir um þremur vikum síðan hafði lögregla afskipti af umræddum manni, geranda, og meðal annars þurfti að svipta hann frelsi,“ segir Birgir.

„Í framhaldi voru skotvopn sem hann hafði undir höndum og er skráður fyrir, tekin í vörslu lögreglu. Við vitum ekki á þessu stigi hvaða skotvopni var beitt í morgun. Það er hluti af rannsókn málsins að leiða það í ljós.“

Manninum var sleppt í kjölfar handtökunnar í sumar en Birgir segir rannsóknina verða að leiða í ljós hvað maðurinn var að gera þarna á þessum tíma og hvað hann hefur verið að gera síðustu daga.

mbl.is