Lögregla horfði til frásagna viðbragðsaðila

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur svarað umboðsmanni um ákvörðun um takmörk …
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur svarað umboðsmanni um ákvörðun um takmörk á aðgengi barna að gosstöðvunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum horfði til frásagna og reynslu viðbragðsaðila við störf á gossvæðinu í Meradölum er hann ákvað að takmarka aðgengi barna að gossvæðinu 10. ágúst.

Þetta kemur fram í svari lögreglustjóra við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis um ákvörðunina.

„Ákvörðun lögreglustjóra er reist á 23. gr. laga um almannavarnir, nr. 82/2008, er heimilar lögreglustjóra á hættustundu að ákveða m.a. að banna dvöl eða umferð á ákveðnum svæðum, svo sem með því að girða af eða hindra umferð um þau, þ.m.t. tilteknar fasteignir, taka í sínar vörslur hættulega muni, vísa á brott eða fjarlægja fólk,“ segir meðal annars í svarinu.

Efasemdir um aðgengi barna

Kemur þar enn fremur fram að lögreglustjóri hafi tilkynnt um ákvörðun sína á fundi með viðbragðsaðilum að morgni 9. ágúst og tillagan hlotið þar góðan hljómgrunn og stuðning allra fundarmanna.

Segir lögreglustjóri að auki í svarinu að viðbragðsaðilar hafi frá upphafi goss haft efasemdir um að rétt væri að hleypa foreldrum með ung börn að gosstöðvunum þar sem um langa og torsótta leið væri að fara og engan veginn hægt að tryggja loftgæði við eldstöðvarnar og þar með öryggi barnanna.

Þá hafi afskipti af foreldrum með börn verið tíð og viðbragðsaðilum áhyggjuefni eins segir af í svarinu:

„Mikið áhyggjuefni voru tíð afskipti þeirra af foreldrum með ung börn sín en foreldrar sýndu kurteisilegum afskiptum viðbragðsaðila oft lítinn skilning og hundsuðu jafnvel leiðbeiningar sem þeim voru gefnar. Vakti athygli að fjölskyldur voru oft engan veginn í stakk búnar til að ganga upp að gosinu.“

Að fengnum skýringum lögreglustjóra kveðst umboðsmaður nú á heimasíðu sinni meta framhald málsins.

Af vef umboðsmanns

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert